Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: FH - Fram 23-21 | Frábær endurkoma FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásbjörn Stefánsson á línunni fyrir FH gegn Fram.
Ásbjörn Stefánsson á línunni fyrir FH gegn Fram. vísir/vilhelm
Fram kastaði frá sér góðri stöðu gegn FH og Hafnfirðingar hófu tímabilið með sigri í leik liðanna á Kaplarika í kvöld, 23-21.

Fram byrjaði leikinn af miklum krafti og komst sex mörkum yfir í fyrri hálfleik. FH náði að laga stöðuna en eftir slæma upphafsmínútur í síðari hálfleik virtist stefna í öruggan sigur Fram.

Gestirnir voru hins vegar sjálfum sér verstir á lokamínútunum og réðu ekkert við spræka heimamenn sem sigu fram úr og unnu tveggja marka sigur.

Mestu munaði um fjögurra mínútna kafla í lokin þegar Fram var í yfirtölu og staðan jöfn, 20-20. FH vann hins vegar þann kafla, 1-0, og náðu að loka algjörlega á sóknarleik gestanna með sterkum varnarleik og mikilvægum markvörslum.

Fram hefur byrjað vel á undirbúningstímabilinu og hefur styrkt sig frá því í fyrra. Óðinn Þór Ríkharðsson, stjarnan frá HM U-19 liða í sumar, kom frá HK sem og Þorgrímur Smári Ólafsson. En það sem meira er þá var Fram búið að fá aftur leikmenn í lið sitt sem voru mikið að glíma við meiðsli allt síðasta tímabil.

Fram, sem rétt svo slapp við fall úr Olís-deildinni í fyrra, byrjaði leikinn af miklum krafti. FH-ingar áttu engin svör við 5-1 varnarleik liðsins og skoruðu ekki mark fyrr en á sjöundu mínútu. FH var þá komið í 4-0 forystu en fyrstu þrjú mörkin komu úr hraðaupphlaupum.

FH-ingar náðu að rétta aðeins úr kútnum næstu mínúturnar en þegar varnarleikur Framara, með Kristófer Fannar Guðmundsson öflugan í markinu, var ekki að spyrja að útkomunni. Fram komst í 10-4 forystu og stefndi í stórsigur Safamýrarpilta en Kristófer Fannar varði alls tíu af þeim átján skotum sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik.

FH fann aðeins betur taktinn í sínum varnarleik eftir þetta og Einar Rafn Eiðsson, sem kom til baka í FH úr atvinnumennsku, skoraði tvö mörk í röð. Hann var markahæstur FH í fyrri hálfleik með fimm mörk.

Heimamenn náðu að minnka muninn í þrjú mörk áður en flautað var til hálfleiks sem vissi á gott fyrir heimamenn. í öllu falli var mun meiri barátta í liði FH eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn sem varð til þess að Frömurum tókst ekki að gera út um leikinn eins og stefndi í.

Þorgrímur Smári fór fyrir sínum mönnum í upphafi síðari hálfleiks og sá til þess að Fram komst í fimm marka forystu þegar rúmar 20 mínútur voru eftir. En FH-ingar gáfust ekki upp og náðu aftur að koma í veg fyrir að gestirnir næðu að stinga af í leiknum.

FH-ingar gáfu lítið eftir í baráttunni og það átti eftir að borga sig. Tvívegis klikkuðu þeir á víti en í bæði skiptin hirti vítaskyttan frákastið og skoraði sjálfur.

Framarar fóru að gera dýrkeypt mistök í sóknarleiknum um miðjan hálfleikinn og á aðeins þriggja mínútna kafla náði FH að skora fjögur mörk í röð og jafna leikinn, 17-17.

Síðustu tíu mínúturnar voru spenanndi en þegar Theodór Ingi Pálmason fékk tvöfalda tveggja mínútna brottvísun og þar með rautt spjald þegar sex mínútur voru eftir af leiknum var útlitið dökkt fyrir Hafnfirðinga.

En sem fyrr segir náðu Framarar engan veginn að stilla strengina á þessum mikilvæga yfirtölukafla og gáfu FH-ingum tækifæri til að síga fram úr og vinna leikinn. Fram skoraði ekki mark á síðustu átta mínútunum fyrir utan eitt í blálokin, þegar úrslitin voru ráðin. Það varð þeirra banabiti í dag.

Tímabilið er þó aðeins nýhafið og þýðing leiksins eftir því. FH-ingar mega vera mjög sáttir við að hafa komið sterkir til baka eftir afar slakan fyrri hálfleik og Fram lítur þrátt fyrir allt betur út en í fyrra. Nýju mennirnir virðast koma vel inn í liðið og takist Guðlaugur Arnarsson að halda sínum mönnum heilum er ljóst að það er von á betra tímabili hjá Fram en í fyrra.

Ásbjörn: Vorum klókir

FH-ingar voru vitanlega hæstánægðir með sigurinn á Fram í kvöld eftir að hafa þurft að elta lengst af í leiknum.

„Ég missti svo sem aldrei vonina þar sem þeir náðu ekki að stinga okkur af. En þetta var ekki fallegt í kvöld,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH. „Við fengum víti eftir korter og það var fyrsta markið sem við fengum eftir uppstilltan sóknarleik. Það segir sitt.“

„Við vorum heppnir í kvöld að þessi slæma byrjun kostaði okkur ekki sigurinn. Vonandi eru þetta bara hnökrar í fyrsta leik sem okkur tekst að laga.“

FH missti mann af velli í fjórar mínútur þegar fimm mínútur voru eftir og staðan jöfn. FH vann engu að síður þann kafla, 1-0, og komst svo í sókn með fullmannað lið þegar lítið var eftir af leiknum.

„Við vorum búnir að fara vel yfir hvernig þeir spila manni fleiri. Við náðum að gera þá aðeins stressaða og þvinguðum þá í mistök. Við settum aukamann í sóknina og náðum að skapa okkur færi sem við nýttum okkur. Það var í fyrsta sinn í leiknum sem við vorum klókir að einhverju viti. Við verðum að vera klókir til að vinna lið eins og Fram.“

„Við vorum allt of hægir og staðir í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsti leikur tímabilsins eigum við að geta betur. En við verðum betri eftir því sem líður á tímabilið, það er augljóst.“

Guðlaugur: Leikmenn urðu of æstir

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, var eins og gefur að skilja afar óáængður með niðurstöðuna í kvöld en hans menn töpuðu fyrir FH eftir að hafa verið með undirtökin í leiknum framan af.

„Ég er hundfúll með þetta tap. Við gerðum mistök og hleyptum þeim inn í leikinn á síðustu tíu mínútunum,“ sagði Guðlaugur. „Við urðum bara allt of æstir. Vorum of mikið að flýta okkur og of stutt í vörn. Við ætluðum okkur um of og því fór svona fyrir okkur.“

„Í sókninni vorum við að taka slæmar ákvarðanir út af því að við vorum svona æstir. Þannig leit alla vega út fyrir mér - við duttum bara út úr okkar skipulagi. Við vorum í yfirtölu í fjórar mínútur hér í lokin og spilum alveg skelfilega út úr því.“

Engu að síður segir Guðlaugur að hann sé bjartsýnn fyrir tímabilið enda búinn að styrkja liðið og endurheimta lykilmenn úr meiðslum. „Ég er mjög ánægður með minn hóp og mitt lið. Í 45 mínútur vorum með þennan leik í okkar höndum en við förum svo illa að ráði okkar.“

Þorgrímur Smári Ólafsson kom frá HK og spilaði á köflum vel í kvöld, sérstaklega í upphafi síðari hálfleiks. „Hann hefur komið vel inn í okkar lið og ég var ánægður með hann eins og allt liðið fyrstu 45 mínúturnar í leiknum. Markvörðurinn okkar var að verja mjög vel og vörnin var góð, enda fengum við bara 23 mörk á okkur. Það á að vera nóg til að vinna leikinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×