Skoðun

Gleðilega menningarnótt!

Dagur B. Eggertsson skrifar
Á morgun höldum við Menningarnótt í 20. sinn en hún var fyrst haldin árið 1996 og hefur stækkað jafnt og þétt síðan. Menningarnótt er stærsta og fjölmennasta einstaka hátíð sem haldin er á landinu en meira en 100.000 gestir koma í bæinn og meira en hundrað mismunandi viðburðir eru haldnir.

Ganga, hjóla, í strætó eða á bíl

Til að tryggja aðgengi sjúkrabíla og slökkvibíla og annarra viðbragðsaðila verður miðbænum lokað fyrir bílaumferð eins og undanfarin ár. Um það bil 40 ólíkir hagsmunaaðilar koma að skipulagningu og samráði þar sem farið er yfir nauðsynlegar lokanir, aðstoð meðan á hátíð stendur, löggæslu og aðkomu sjúkrabíla, samgöngur og margt fleira til að gera Menningarnótt ánægjulega og örugga. Hægt er að kynna sér allar upplýsingar um aðgengi og lokanir á vef Menningarnætur.

Ókeypis skutlur

Í fyrra buðum við í fyrsta skipti upp á ókeypis skutlur niður í miðborg frá stórum bílastæðum við Kirkjusand og Borgartún undir slagorðinu Leggjum fjær og komumst nær, en sú þjónusta sló í gegn og verður því aftur í boði í ár. Svo er líka ókeypis í strætó sem keyrir hefðbundnar leiðir til kl. 23.00 en þá tekur við sérstakt leiðakerfi sem á að koma öllum hratt og örugglega heim úr miðborginni.

Njótum Menningarnætur saman

Að Menningarnótt standa fjölmargar stofnanir, listamenn og félagasamtök. Bakhjarlar Menningarnætur eru sem fyrr Landsbankinn og Vodafone en Landsbankinn styrkir viðburði gegnum umsóknir í Menningarnæturpottinn og Vodafone kostar flugeldasýninguna sem er lokaatriði Menningarnætur. Öllum þessum aðilum vil ég þakka sérstaklega.

Hvað á að svo gera?

Og hvað á svo að gera á Menningarnótt? Eftir að Menningarnótt stækkaði svona ógurlega hefur gefist vel að láta tilviljun ráða, byrja einhvers staðar og leyfa viðburðunum að teyma sig áfram án þess að vera með eitthvert stórkostlegt plan. Svo er líka hægt að þræða stóru viðburðina, maraþonið, flugeldasýninguna og ört stækkandi viðburði eins og karnivalið á Hverfisgötu. Mikilvægast er samt að njóta Menningarnætur saman með fjölskyldunni, fara í bæinn saman og svo heim saman. Gleðilega Menningarnótt!




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×