Menning

Yrðlingarnir alltaf tilbúnir að veiða hrút

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þau Guðrún Ýr og Benedikt eru meðal ellefu barna sem leika yrðlinga í óperunni Baldursbrá.
Þau Guðrún Ýr og Benedikt eru meðal ellefu barna sem leika yrðlinga í óperunni Baldursbrá. Vísir
Hvernig er að syngja í óperu?

Benedikt: Bæði gaman og krefjandi, það er sérstaklega gaman þegar miklar æfingar skila árangri.

Guðrún Ýr: Það er mjög gaman að syngja í óperu þótt það sé svolítið krefjandi.

Hversu margir yrðlingar eru í Baldursbrá og hvernig eru þeir?

Guðrún Ýr: Það eru ellefu yrðlingar og þeir eru mjög  grimmir! Þeir eru alltaf tilbúnir að veiða hrút.

Benedikt: Þeir vilja líkjast Rebba og herma eftir honum. En þeir eiga líka góðar hliðar þó að þeir reyni að éta hrútinn.

Hafið þið séð tófugreni eða tófur úti í náttúrunni?

Guðrún Ýr: Í sveitinni minni sáum við einu sinni tófugreni  en síðan fundum við það ekki aftur.

Benedikt: Ég hef bara séð uppstoppaðar tófur og í Húsdýragarðinum.

Er óperan Baldursbrá fyrsta verkefni ykkar á sviði?

Benedikt: Nei, ég var í Baldursbrá á Siglufirði og í Langholtskirkju og hef sungið í óperunum La Boheme og Carmen. Ég var í Dýrunum í Hálsaskógi og Jólahátíð Skoppu og Skrítlu. Svo hef ég sungið á tónleikum Karlakórs Reykjavíkur, Drengjakórs Reykjavíkur og í Maxímús Músíkús kætist í kór með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig hef ég verið í Sönglist.

Guðrún Ýr: Og ég hef verið í La Boheme , Maxímús Músíkús kætist í kór og Skrímslið litla systir mín.

Eruð þið að læra söng – eða stefnið í svoleiðis nám?

Benedikt: Já, ég hef verið í Drengjakór Reykjavíkur í fimm ár og fengið leiðsögn hjá Friðriki kórstjóra. Það kemur bara vel til greina að gera sönginn að atvinnu.

Guðrún Ýr: Ég er í Graduale futuri kór Langholtskirkju og ætla í söngnám.

Hvað fleira eruð þið að sýsla þessa dagana?

Guðrún Ýr: Ég fer á hestbak og æfi mig á gítar.

Benedikt: Á þessu ári hef ég verið í upptökum á jólaplötu með Viktori Orra úr Hjaltalín sem kemur út fyrir jól. Þar syng ég til dæmis með Þóru Einarsdóttur, Sigríði Thorlacius og systur minni Helenu. Ég er líka í Listdansskóla Íslands og að læra á píanó. Svo er ég í fermingarfræðslu hjá séra Pálma í Bústaðakirkju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.