Körfubolti

Pavel: Bið fjölmiðlamenn að slaka á dramatíkinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pavel á ferðinni með landsliðinu.
Pavel á ferðinni með landsliðinu. vísir/anton
Leikstjórnandinn Pavel Ermolinskij er á leið með landsliðinu til Póllands. Hann er lítillega meiddur og segir fréttir um hann fari ekki með liðinu vera rangar.

„Ég veit ekki hver byrjaði á þessari dramatík. Fjölmiðlarnir fóru af stað í einhverja ævintýramennsku. Þetta er bara kjaftæði," segir Pavel en RÚV greindi frá því að hann myndi ekki fara með landsliðinu til Póllands í vikunni út af nárameiðslum.

„Ég fór aðeins í náranum á mótinu í Eistlandi. Ég fer pottþétt með liðinu til Póllands."

Strákarnir eiga æfingaleiki í Póllandi á föstudag, laugardag og sunnudag. Pavel segir ekki ljóst hvort hann spili eitthvað í mótinu enda muni menn fara varlega þó svo meiðslin séu ekki alvarleg.

„Þetta kemur allt í ljós á næstu dögum. Þetta er bara smávægileg tognun en á leiðinlegum stað. Þetta er ekkert hræðilegt. Það verður að koma í ljós er nær dregur helgi hvað ég get gert."

Pavel segir vissulega slæmt að það séu bara leikir en ekki neinar æfingar þessa helgina til að hann geti látið reyna almennilega á meiðslin. Engu að síður sé stóra mótið ekki í neinni hættu.

„Ég vil biðja fjölmiðlamenn að slaka aðeins á dramatíkinni. EM er ekki í neinni hættu hjá mér."

Strákarnir fara beint frá Póllandi til Þýskalands þar sem þeir hefja leik á EM þann 5. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×