Körfubolti

Jón Arnór: Ég er vel gíraður

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Arnór er orðinn heill heilsu og klár í slaginn.
Jón Arnór er orðinn heill heilsu og klár í slaginn. vísir/anton
Það var kominn fiðringur í Jón Arnór Stefánsson er EM-hópurinn í körfubolta var kynntur í KR-heimilinu í dag.

„Það er mikið að gerast í mallakútnum á manni. Spenna, kvíði og allt í bland. Þetta er góð og jákvæð tilfinning. Jákvætt stress," segir Jón Arnór en hann var ánægður með spilamennsku liðsins á mótinu í Eistlandi um síðustu helgi. Hann hvíldi þá vegna meiðsla en er orðinn góður.

„Nú erum við að slípa það sem til þarf og munum nýta Póllandsferðina til þess að gera það. Ég mun spila með strákunum þar og koma mér betur inn í hlutina. Við erum vel stemmdir og spenntir að fá að stíga út á gólf. Ég er orðinn vel gíraður."

Jón segist hafa vel getað spilað síðustu tvo leikina í Eistlandi en þar sem hann var enn bólginn var ákveðið að taka ekki neinar áhættur með hann.

Hann segir undirbúninginn hafa verið góðan og það hafi verið erfitt að kveðja þrjá stráka sem duttu út í dag.

„Við erum allir góðir vinir og náum vel saman. Það er ákveðin tilfinning að vera í landsliðinu sem ég er ekki viss um að aðrar þjóðir finni fyrir. Maður gleymdi nánast í þessu öllu saman að það þyrftu þrír að sitja heima. Það var ekki auðvelt örugglega að velja því allir áttu vel skilið að fara til Berlín. Þessir strákar eru samt hluti af hópnum. Það er engin spurning."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×