Menning

Yrðlingarnir þurfa að komast til refs

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Eyjólfur Eyjólfsson, Fjóla Kristín Nikulásdóttir og Jón Svavar Jósefsson í hlutverkum sínum.
Eyjólfur Eyjólfsson, Fjóla Kristín Nikulásdóttir og Jón Svavar Jósefsson í hlutverkum sínum. Vísir/Ernir
Brúnklædd börn með skott skjótast um tröppur og ganga Hörpunnar þegar ég bregð mér þangað rétt fyrir æfingu á óperunni Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson. Erindið er að hitta þátttakendur áður en þeir fara á svið. Mér er vísað í sminkherbergið þar sem andlit krakka eru að breytast í yrðlinga og Eyjólfur Eyjólfsson söngvari er að fá yfirbragð spóa, íklæddur grænum sokkabuxum. „Það hefur lengi verið draumur minn að fá að ganga í sokkabuxum,“ segir hann hlæjandi.

Spurður út í karakterinn segir Eyjólfur spóann vera sambland af fordekruðum herramanni og íslenskum smaladreng. „Spóinn lendir í andlegum átökum í verkinu því hann á frumkvæði að því að blómið baldursbrá er rifið upp með rótum og fært á verri stað. Hann fær rebba (Jón Svavar Jósefsson) í lið með sér. En spóinn gerir sér á endanum grein fyrir flónsku sinni.“

Söguþráður óperunnar snýst sem sagt um baldursbrá sem verið er að ráðskast með. „Baldursbrá er ímynd móður jarðar og efni óperunnar er viss ádeila á brölt okkar mannanna í náttúrunni,“ útskýrir Eyjólfur.

Davíð Ólafsson, söngvari og fasteignasali, snarast inn í smink. „Ég er þessi vondi – hrúturinn,“ segir hann kankvís. Davíð, eins og flestir aðrir þátttakendur, flutti Baldursbrá tvívegis í tónleikaformi í fyrrasumar og segir spenning fyrir óperuuppfærslu hafa myndast þá. Rifjar upp góðan dóm Jónasar Sen gagnrýnanda sem gekk raulandi út úr Langholtskirkju.

Í Norðurljósasalnum eru Gunnsteinn, höfundur og hljómsveitarstjóri, og Sveinn Einarsson leikstjóri að undirbúa fyrstu samæfingu með hljómsveit. Sveinn ber lof á verkið, segir sönginn hrífandi og boðskapinn fallegan. Ingibjörg Björnsdóttir danskennari er að leggja yrðlingunum ellefu lífsreglurnar. „Þeir þurfa að komast til refs,“ (ekki manns) útskýrir leikstjórinn brosandi og kveðst vitna þar í glaðlegan og aðgengilegan texta Böðvars.

Fjóla Nikulásdóttir fer með titilhlutverkið, nýútskrifuð með masterspróf í óperusöng frá Vínarborg. Hún segir Baldursbrá yndislega óperu þar sem stef úr íslenskum þjóðlögum blandist rómantískri tónlist á einstakan hátt.

Leikararnir tínast inn í búningunum, hönnuðum af Kristínu Berman með aðstoð Messíönu Tómasdóttur. Spóinn blakar vængjum og baldursbráin blómstrar.

Ég kveð í þann mund sem fyrstu tónarnir eru slegnir í glænýrri gryfjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.