Skoðun

Ódýrt en áhrifaríkt

Árni Páll Árnason skrifar
Allir vita hversu alvarlegt ástand er á leigumarkaði í dag. Enginn fær íbúð á boðlegum kjörum og litlar íbúðir á besta stað eru bæði illfáanlegar og dýrar.

Ásókn ferðamanna í skammtímaleigu veldur skorti á íbúðum á almennum leigumarkaði. Fyrir því finna námsmenn og aðrir sem þurfa á leiguhúsnæði að halda. Tekjur af leigu til ferðamanna eru enda miklu meiri en af leigu á almennum markaði.

En á sama tíma er líka fólk sem á íbúðir eða laus herbergi sem það er ekki tilbúið að leigja til lengri tíma, vegna þess að lítið fæst upp úr því.

Húsnæði skortir

Mikilvægasta leiðin til lausnar er að sjálfsögðu að fjölga leiguíbúðum. Það er mikill skortur á litlu og meðalstóru húsnæði í öruggri leigu. Þess vegna er Reykjavíkurborg nú að styðja við byggingu fjölda nýrra leiguíbúða, í samvinnu við búseturéttarfélög og félög stúdenta. Það er ekki nóg að byggja, það verður að tryggja að íbúðirnar verði til útleigu til langframa.

Ein góð hugmynd

Ríkið getur líkt og sveitarfélög stuðlað að jákvæðum breytingum. Þess vegna leggjum við til skattaafslátt til einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar til að lágmarki 12 mánaða. Slík aðgerð gæti aukið framboð leiguhúsnæðis gríðarlega. Um 4.000 íbúðir eru í leigu til ferðamanna í gegnum vefsíðuna Airbnb. Ef einungis hluti þeirra færi í langtímaleigu yrði stórum áfanga náð. Aðrir sem ekki eru að leigja út í dag, gætu séð sér leik á borði, ef þessi lagabreyting yrði að veruleika.

Öruggt húsnæði til kaups eða leigu

Húsnæðismál eru alvarlegasta úrlausnarefnið þessi misserin. Samfylkingin hefur flutt fjölda þingmála til úrlausnar, sem því miður hafa ekki orðið að veruleika. Það skiptir miklu að koma hreyfingu á þennan málaflokk og tryggja fólki að það geti bæði komist í örugga leigu og keypt sína fyrstu íbúð. Í haust munum við áfram beita okkur fyrir því að allir geti búið sér til gott heimili á viðráðanlegum kjörum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×