Íslenski boltinn

Harpa: Þetta er ágætis hefð

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Harpa skoraði þrennu í bikarúrslitaleiknum í fyrra og sigurmarkið í ár.
Harpa skoraði þrennu í bikarúrslitaleiknum í fyrra og sigurmarkið í ár. vísir/anton
„Þetta gerist ekki sætara. Sigrar eru eiginlega alltaf sætari þegar maður lendir undir og er búinn að vera í basli og nær að snúa blaðinu við,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir hetja Stjörnunnar í dag í bikarúrslitunum.

„Bæði lið voru búin að mynda gríðarlega mikla stemningu í sínum heimabæjum fyrir þennan leik og það var ótrúlega gaman og mikilvægt fyrir okkur Garðbæinga að fá einn bikar heim.

„Að sjálfsögðu bjargar þetta tímabilinu. Okkur finnst við vera bestar og þess vegna eru mikil vonbrigði að sjá Íslandsmeistaratitilinn fara eitthvað annað en þessi bikar á heima í Garðabænum,“ sagði Harpa.

Stjarnan fagnaði bikarmeistaratitlinum annað árið í röð í dag og í þriðja sinn á fjórum árum.

„Þetta er ágætis hefð. Íslandsmeistaratitillinn er aðeins stærri titill en þetta er skemmtilegasti dagur ársins.

„Þegar maður nær að leggja sitt að mörkum er frábært og það gleður mann,“ sagði Harpa um tilfinninguna að skora sigurmarkið rétt fyrir leikslok.

„Það var frábær stemning í fyrra og ég held að allir hafi viljað gera enn betur í ár og það var æðislegt að sjá kvennaknattspyrnuna í dag,“ sagði Harpa en aldrei hafa fleiri áhorfendur mætt á úrslitaleik í bikarkeppni kvenna og var stemningin á vellinum frábær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×