Innlent

„Moskan“ fékk ekki flýtimeðferð og því fallið frá áfrýjun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sverrir Agnarsson, formaður Félags íslenskra múslima, ávarpar gesti moskunnar.
Sverrir Agnarsson, formaður Félags íslenskra múslima, ávarpar gesti moskunnar. Mynd/Snorri Ásmundsson

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) hefur fallið frá dómsmáli sínu á hendur borgaryfirvöldum í Fenyjum vegna lokunar á íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum í maí. Miklar deilur voru um „moskuna“ en um er að ræða verk Christsophs Büchel sem staðsett var inni í fornfrægri kaþólskri kirkju frá 10. öld í Feneyjum.

Í tilkynningu frá KÍM segir að óskað hafi verið eftir flýtimeðferð málsins þann 29. júlí síðastliðinn. Félli dómur KÍM í hag væri hægt að opna skálann aftur sem fyrst.

Þeirri beiðni hafi verið hafnað og í ljósi þess hve langan tíma dómsmál geti tekið hafi verið ákveðið á stjórnarfundi KÍM að hætta við dómsmálið. Sýningartíma Feneyjatvíæringnum lýkur í nóvember og engar líkur á að afstaða yrði tekin í málinu fyrir þann tíma.

„Framhald málsins gæti því aðeins snúst um mögulegar skaðabætur vegna þess tjóns sem KÍM hefur orðið fyrir vegna lokunarinnar.“

Stjórn KÍM vinnur nú að því að kanna hvernig og hvort sé hægt að halda sýningunni opinni áfram út sýningartímabilið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×