Enski boltinn

Depay er aldrei ánægður og Van Gaal er ánægður með það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal og Memphis Depay.
Louis van Gaal og Memphis Depay. Vísir/Getty
Memphis Depay var maðurinn á bak við 3-1 sigur Manchester United á belgíska liðinu Club Brugge í gær í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Meistaradeildinni.

Depay skoraði tvö glæsileg mörk í fyrri hálfleik eftir að Manchester United liðið hafði lent undir í upphafi leiks og lagði síðan upp þriðja markið fyrir Marouane Fellaini í blálokin.

Memphis Depay fékk færi til að innsigla þrennuna og var enn að velta sér upp úr því þegar hann hitti blaðamenn eftir leikinn.

„Ég skoraði mikið af mörkum fyrir PSV í lok síðasta tímabils. Þegar þú kemur til stórliðs þá verður þú að skora mörk og það var góð tilfinning að skora mín fyrstu mörk á Old Trafford," sagði Memphis Depay og bætti við:

„Ég var svolítið vonsvikinn að ná ekki að skora þriðja markið. Ég hugsa um það í kvöld en verð búinn að gleyma því á morgun. Ég ánægður með sigurinn og það var sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að fá þetta þriðja mark frá  Fellaini. Nú þurfum við bara að klára dæmið í Brugge," sagði Depay.

Sjá einnig:Memphis stimplaði sig inn með látum

„Ég er mjög ánægður fyrir hönd Memphis því leikmaður þarf á svona leik að halda. Ég sagði að þetta væri bara spurning um tíma og það varð líka raunin. Vonandi heldur hann áfram á þessari braut. Þetta er samt erfitt fyrir hann því hann er enn bara 21 árs og bara búin með tvö tímabil hjá PSV," sagði Louis van Gaal eftir leikinn.

„Ég hef fulla trú á honum. Hann er aldrei ánægður og það er ég ánægður með," sagði Van Gaal og vísaði þar í ummæli Memphis sem sá á eftir þrennunni.

„Mér datt samt helst í hug að kyssa hann eftir leikinn því ef þú skorar tvö og leggur upp eitt þá ertu hetja þíns liðs," sagði Van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×