Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Holland 65-73 | Tap í síðasta heimaleiknum fyrir EM

Stefán Árni Pálsson í Laugardalshöllinni skrifar
Craig Pedersen messar yfir sínum mönnum.
Craig Pedersen messar yfir sínum mönnum. vísir/ernir
Holland bar sigur úr býtum, 73-65, gegn íslenska landsliðinu í körfubolta í vináttuleik í Laugardalshöllinni í dag. Þetta var í annað skipti sem liðin mætast á tveimur sólahringum og vann íslenska liðið fyrri leikinn með 25 stiga mun.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á staðnum og tók þessar myndir sem sjá má með fréttinni.

Kees Akerboom var stigahæstur í liði Hollands með 12 stig en stigaskorið dreifðist vel hjá liðinu. Hjá Íslendingum var það Jakob Örn Sigurðsson sem gerði 17 stig.

Bæði lið voru vel ryðguð í upphafi leiks og voru íslensku strákarnir nokkuð lengi í gang. Varnarleikur liðsins var til að mynda ekki góður, algjörlega þvert á við fyrri hálfleikinn í Þorlákshöfn á föstudagskvöldið. Þegar leið á fjórðunginn komst íslenska liðið meira í takt við leikinn og var það mikið til vegna frammistöðu Jóns Arnórs Stefánssonar sem fór mikinn í byrjun leiks. Staðan var 20-16 eftir tíu mínútna leik.

Íslenska liðið lék strax betur í öðrum leikhluta og var allt annað að sjá til liðsins. Jón Arnór hélt áfram að stjórna leik liðsins og Haukur Helgi kom einnig virkilega sterkur inn. Hollendingarnir voru samt sem áður sterkir og létu alls ekkert valta yfir sig.

Íslensku strákarnir voru oft á tíðum í vandræðum varnarlega og fór Worthy de Jong stundum illa með okkar menn í fyrri hálfleiknum. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 41-33 og leikurinn galopinn.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn virkilega vel og það leið ekki að löngu þar til liðið var komið með 14 stiga forystu, 49-35. Þá tóku Hollendingar upp á því að gera 10 stig í röð og minnkuðu muninn í fimm stig. Heldur betur leikhluti áhlaupanna en Kees Akerboom setti niður flautuþrist undir lok leikhlutans og var staðan 52-51 fyrir Íslendingum fyrir lokakaflann.  

Hollendingar byrjuðu fjórða leikhlutann mikið mun betur og gerði níu fyrstu stigin. Staðan var allt í einu orðin 60-52 fyrir þá appelsínugulu. Íslendingar hættu í raun þegar liðið var komið í 49-35 og 14 stigum yfir. Þá tók við 28-3 kafla Hollendingum í vil.

Sá kafli fór gjörsamlega með leikinn og mikið andleysi var í íslenska liðinu í fjórða og síðasta leikhlutanum. Leiknum lauk með öruggum sigri Hollendinga 73-65 og þarf íslenska liðið að skoða nokkra hluti fyrir næsta verkefni. 

Hlynur: Það var eitthvað andleysi yfir liðinu„Við skoruðum nánast ekkert meira, það sem eftir lifði leiks,“ segir Hlynur Bæringsson um slæma kaflann þegar íslenska liðið var 49-35 og fékk á sig 28 stig á stuttum tíma, og gerði aðeins þrjú stig.

„Ég veit ekki alveg hvað gerðist, persónulega fannst mér meiri orka vera í mér í dag en á föstudaginn. Síðan gerðist bara eitthvað í síðari hálfleiknum sem ég hef bara ekki hugmynd hvað var.“

Hlynur segir að ákveðið andleysi eða vonleysi hafi einkennt leik liðsins í fjórða leikhlutanum.

„Við vorum alveg ennþá í séns, náðum þessu niður í sjö stig en mér fannst við ekki nýta það nægilega vel.“



Jakob: Það var í raun gott fyrir okkur að lenda í þessu„Það er alltaf ákveðin vonbrigði að tapa,“ segir Jakob Örn Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir leikinn.

„Við ætluðum okkur að vinna leikinn og mér fannst þetta ganga vel framan af. Lokin á þriðja leikhlutanum og byrjun fjórða var mjög erfiður fyrir okkur. Við duttum niður sóknarlega og þetta var allt mjög hægt og styrt.“

Jakob segir að það hafi í raun verið gott fyrir liðið að lenda í þessari stöðu í kvöld.

„Við þurfum núna að finna lausnir þegar svona gerist. Þetta gerist mjög oft í körfuboltaleikjum og sérstaklega hjá svona góðum liðum.“



Tölfræði leiks:

Ísland-Holland 65-73 (20-16, 21-17, 11-18, 13-22)

Ísland: Jakob Örn Sigurðarson 17, Haukur Helgi Pálsson 13/4 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 11, Martin Hermannsson 8, Hlynur Elías Bæringsson 5/12 fráköst/5 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 5, Hörður Axel Vilhjálmsson 5, Pavel Ermolinskij 1/8 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 0, Helgi Már Magnússon 0, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 0, Ægir Þór Steinarsson 0.



Holland:
Kees Akerboom 15/4 fráköst, Charlon Kloof 10, Roeland Schaftenaar 9/9 fráköst, Worthy de Jong 9, Mohamed Kherazzi 8/9 fráköst, Yannick Franke 6, Arvin Slagter 6, Leon Williams 5, Robin Smeulders 2/4 fráköst, Ralf de Pagter 2/4 fráköst, Sean Kingsley Cunningham 1, Nicolas de Jong 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Anthonie Sinterniklaas, Leifur S. Gardarsson

[Bein lýsing]

Leik lokið (65-73) 
Hollendingar taka þennan leik sanngjarnt. 

39. mín (63-69)
 27 sekúndur eftir og Hollendingar á línunni. Þessi leikur klárast þar. 

39. mín (60-67) 
Þetta lítur ekki vel út fyrir íslenska liðið. Rúmlega ein mínúta eftir og sjö stiga munur. Þetta verður í það minnsta mjög erfitt. 

37. mín (58-65) 
Jakob Örn með þriggja stiga körfu og lagar aðeins stöðuna. 

35. mín (52-63) 
Það er ekkert að gera hjá íslenska liðinu og það hefur ekki skorað stig í fjórða leikhlutanum. Með ólíkindum. Frá því staðan var 49-35 fyrir Ísland hefur Holland skorað 28 stig og Ísland aðeins 3. 

33. mín (52-60) 
Algjört hrun hjá íslenska liðinu og fara Hollendingar a kostum. Kees er að setja niður mikilvægar körfur. 

31. mín (52-54) 
Hollendingar komnir yfir og fagna þeir gríðarlega á varamannabekknum. 

3. leikhluta lokið (52-51) 
Svakalegur þristur undir lokin hjá Kees Akerboom og það munar aðeins einu stigi á liðinum. 

28. mín (51-45) 
Loksins náðu íslensku strákarnir að setja boltann ofan í körfuna. Munar sex stigum á liðunum, það er ekki neitt.

26. mín (49-45) 
Þetta er svo fljótt að gerast í þessari íþrótt. 10-0 kafli hjá Hollendingum og þeir vinna síðan strax boltann aftur. Craig tekur eðlilega leikhlé. 

25. mín (49-43) Hollendingar að svara íslensku áhlaupi með sínu eigin áhlaupi. Eru að keyra hraðan vel upp. 

23. mín (49-35) 
Frábær byrjun hjá íslenska liðinu. Komnir með 14 stiga forskot. Jakob, Hauku Helgi og Jón Arnór allir kominr með tíu stig eða meira.



Hálfleikur (41-33) 
Svakalegur lokakafi hjá íslenska liðinu og virkilega gaman að fylgjast með hvernig Jón Arnór Stefánsson stýrir þessu liði eins og herforingi. Allt annað að sjá til sóknarleik liðsins og boltinn fær að ganga vel á milli manna. Þetta verður fróðlegur síðari hálfleikur.

18. mín (32-29) 
Enn jafnræði á með liðunum. Það er einhver pirringur á milli liðanna og stimpingar algengar. 

16. mín (30-24) 
Haukur Helgi að koma inn með krafti. Hefur strax sett niður níu stig. 

15. mín (28-23) 
Hiti kominn í leikinn en Mohamed Kherazzi ýtir ég við Hlyni Bæringssyni. Mjög pirraður. 

13. mín (28-21) 
Jón Arnór aftur með þriggja stig körfu og kemur íslenska liðinu 7 stigum yfir. 

11. mín (20-18)
Worthy de Jong er stigahæstur hjá hollenska liðinu með 6 stig. Jón Arnór er einnig með sex stig hjá Íslendingum. 

1. leikhluta lokið (20-16)
 Ágætur loksprettur hjá íslensku strákunum og þeir leiða eftir fyrsta leikhlutann 20-16. 

8. mín (13-14)
 Hollendingar eru komnir yfir. Íslendingar eru ekki að sýna góðan varnarleik, alveg öfugt við leikinn gegn sama liði á föstudaginn. 

6. mín (9-8) 
Það er ekki hægt að segja að þetta sé góður körfubolti sem liðin eru að bjóða upp á þessar fyrstu mínútur. 

4. mín (7-4) 
Jón Arnór kominn með sex fimm og er allt í öllu í sóknarleik Íslendinga. 

2. mín (3-2)
 Jón Arnór setur þá bara þrist í andlitið á þeim. 

2. mín (0-2) 
Gestirnir skora tvö fyrstu stigin. 

1. mín (0-0) 
Þá er þetta farið af stað. 

Fyrir leik: 
Þá eru þjóðsöngvarnir búnir og allt klár. Áfram Ísland!

Fyrir leik: 
Fimmtán mínútur í leik og áhorfendur farnir að mæta í Laugardalshöllina. 

Fyrir leik: 
Íslenska liðið undirbýr sig næstu vikurnar fyrir Evrópumótið í körfubolta sem fram fer í Berlín 5. - 20. september. 

Fyrir leik: 
Jason Dourisseau sem lék með KR á árunum 2008-2009 er ekki á leikskýrslu í dag. Hann verður því ekki með Hollendingum í leiknum. 

Fyrir leik: 
Haukur Helgi Pálsson var frábær í liði Íslands gegn Hollendingum á föstudagskvöld og gerði 23 og tók 9 fráköst. 

Fyrir leik: 
Í síðasta leik spilaði íslenska liðið frábærlega og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem flest allt gekk upp. Varnarleikurinn var til mikillar fyrirmyndar og náðu okkar menn að halda hávöxnu liði Hollands í skefjum. 

Fyrir leik: 
Liðin mættust í Þorlákshöfn á föstudagskvöldið og þá vann Ísland nokkuð auðveldan sigur 80-55. 

Fyrir leik : 
Með hollenska liðinu spila tveir Íslandsvinir eins og Vísir greindi frá í vikunni. Jason Dourisseau (KR 2008-2009) er í hópnum sem og Sean Cunningham sem lék með Tindastóli 2010-2011. 

Fyrir leik: Liðin eru komin út á völl til að hita upp. Fín stemning yfir íslenska hópnum. 



Fyrir leik: 
Góðan daginn og velkomin með Vísi í Laugardalshöllina þar sem fylgst verður með vináttulandsleik Íslands og Hollands.

vísir/ernir
vísir/ernir
vísir/ernir
vísir/ernir
vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×