Erlent

Miklar líkur á að fundið sé brak úr MH 370

Heimir Már Pétursson skrifar
Margt bendir til að loks hafi fundist brak úr flugvél Malysian sem hvarf með tæplega þrjúhundruð manns innanborðs fyrir rúmu ári, eftir að brot úr væng fannst á smáeyju í Indlandshafi. 

Mikil og víðfem leit hefur verið gerð að Boeing 777 farþegaflugvél Malysian Airlines frá því hún hvarf á flugleið MH370 frá Kuala Lumpur til Peking í mars á síðasta ári, án árangurs hingað til. Um borð voru 239 farþegar og áhöfn. Íbúar á smáeyjunni Reunion á Indlandshafi fundu tveggja metra langan vængbút á ströndinni í gær sem við fyrstu sýn virðist vera úr Boeing 777 farþegaþotu en aðeins einnrar slíkrar flugvélar er saknað í heiminum.

„Sérfræðingar frá Boeing og fleiri aðilum fara á staðinn til að kanna hvort þetta sé hluti af Boeing 777 flugvél. Ef svo reynist þarf að sannreyna að hluturinn sé úr flugvélinni sem er saknað,“ segir Warren Truss aðstoarforsætisráðherra Ástralíu. En Ástralir hafa stjórnað leitinni að flugvélinni.

Í dag fannst síðan illa farin en heil ferðataska sem líklegt er að hafi verið um borð í flugvélinni. Ef vænghlutinn og ferðataskan eru úr MH370 flugvélinni hafa þau rekið um fimm þúsund sjómílur frá þeim stað þar sem flugvélin hvarf af ratsjá flugumferðarstjórnar.

Reunion eyja heyrir undir Frakka og verður brakið sent til Frakklands til nánari skoðunar. Á meðan bíða ættingjar í örvæntingu en flestir farþeganna voru frá Kína.

„Ef brakið reynist vera úr MH 370 mun það vonandi gefa fjölskyldum farþeganna einhvers konar lok á málinu og það tel ég vera það mikilvægasta sem gæti gerst. Ef hægt verður að staðfesta án nokkurs vafa að flugvélin hafi hrapað í hafið mun það auka skilning fólks á því sem  gerðist,“ segir Truss.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×