Fótbolti

Daily Record stráir salti í sár Stjörnunnar með háði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
„Mér fannst hrokinn skína af þeim. Þeir höguðu sér ekki nógu vel og mikið verið að gera lítið úr okkur - bæði fjölmiðlar og aðrir. Það er bara óþarfi.“

Þetta sagði Ólafur Karl Finsen, markaskorari Stjörnunnar, eftir tapið gegn Celtic á heimavelli í gær. Stjarnan er úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en getur gengið frá verkefninu með reisn.

Ef mark má umfjöllun skoskra fjölmiðla í morgun, sérstaklega götublaðsins Daily Record, hitti Ólafur Karl naglann á höfuðið. Skrif Gary Ralston um viðureign gærkvöldsins á Samsung-vellinum er gegnumsýrð af virðingaleysi um íslenska knattspyrnu, Stjörnuna og heimavöll félagsins.

„Ísland má eiga öskuna [e. ash], skosku meistaranir eru enn með augastað á seðlunum [e. cash],“ skrifaði hann meðal annars og sagði að Celtic gæti enn leyft sér dreyma um þann gríðarlega fjárhagslega vinning sem lið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu fá.

Ralston sagði að í samanburði við Samsung-völlinn, heimavöll Stjörnunnar, liti heimavöllur Inverness Caledonian Thistle eins og Santiago Bernabeu í Madríd.

„Það er sundlaug fyrir aftan einu stúkuna við völlinn, leikvöllur fyrir aftan annað markið og trjágróður við einn enda vallarins sem skýlir honum álíka mikið fyrir vindinum og netabolur.“

Rolston heldur að Stjarnan sé úthverfi Reykjavíkuborgar sem heiti „Goldabaer“ og nefnir að Latibær eigi rætur sínar að rekja til Garðabæjar. „En um leið og Bitton kom Celtic 3-1 yfir samanlagt hafi sjálfur íþróttaálfurinn ekki einu sinni náð að koma Stjörnumönnum til bjargar.“

Ralston má þó eiga að hann hrósaði Silfurskeiðinni, stuðningsmannasveit Stjörnunnar, sem sungu látlaust allan leikinn.

„Þeir eru mögulega fyrstu stuðningsmenn sögunnar sem kyrja lag eftir Leonard Cohen í stúkunni. Útgáfa þeirra af laginu Hallelujah hefði fengið gamla manninn til að brosa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×