Íslenski boltinn

Óskar: Sameiginleg ákvörðun stjórnar og leikmanns

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Glenn í leik með ÍBV á Kópavogsvelli.
Glenn í leik með ÍBV á Kópavogsvelli. Vísir/Stefán
„Þetta var sameiginleg ákvörðun stjórnar og leikmannsins að þetta væri farsælasta lausnin. Hann sá ekki fram á að fá að spila nægilega margar mínútur það sem eftir lifir tímabilsins,“ sagði Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, aðspurður að því hver aðdragandinn væri að því að Jonathan Glenn, markahæsti leikmaður liðsins hefði gengið til liðs við Breiðablik á láni út árið.

Heimamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson gekk til liðs við ÍBV á dögunum ásamt spænska framherjanum Jose Enrique og óskaði Glenn því eftir því að fá að fara frá félaginu að sögn Óskars.

Gunnar Heiðar fór meiddur af velli í gær en þrátt fyrir það var tekin ákvörðun um að samþykkja tilboð Kópavogsliðsins.

„Þetta eru búnar að vera viðræður undanfarna daga og við héldum að þessu væri lokið en eftir leikinn í gær hafa þeir samband aftur og við komumst að samkomulagi,“ sagði Óskar sem staðfesti að ÍBV væri að skoða möguleikann á að bæta við sig leikmanni.

„Það er eitthvað sem er í skoðun að fá til liðs við okkur einn leikmann.“

Óskar var ósáttur með spilamennskuna í gær í 0-3 tapi gegn Stjörnunni en framundan eru leikir gegn KR í undanúrslitum Borgunarbikarsins og gegn Fylki og Leikni í Pepsi deildinni.

„Það vantaði sömu ákefð og leikmenn sýna þegar þeir eru að spila á Hásteinsvelli. Við erum bjartsýnir fyrir leikina sem eru framundan og vonandi verður spilamennskan betri.“


Tengdar fréttir

Blikar leigja Glenn af ÍBV

Knattspyrnudeild Breiðabliks og ÍBV hafa náð samkomulagi um leigu á framherjanum Jonathan Ricardo Glenn út þetta keppnistímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×