Íslenski boltinn

Arnar um Glenn: Duttum í lukkupottinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glenn lék seinni hálfleikinn í leik Stjörnunnar og ÍBV í gær.
Glenn lék seinni hálfleikinn í leik Stjörnunnar og ÍBV í gær. vísir/valli
Eins og fram kom á Vísi í gærkvöldi mun Jonathan Glenn, landsliðsmaður Trinidad og Tóbagó, leika með Breiðabliki út tímabilið á láni frá ÍBV.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, er að vonum ánægður með liðsstyrkinn.

„Já, það gefur auga leið. Við höfum verið að leitast við að styrkja okkur fram á við og ég held að við höfum dottið í lukkupottinn þegar þetta kom upp,“ sagði Arnar í samtali við Vísi í dag. Hann segir að þessi félagaskipti hafi ekki átt sér langan aðdraganda.

„Nei, ég hélt að þetta væri ekkert inni í myndinni en svo kom þetta allt í einu datt þetta inn á borð hjá okkur. Þetta gerðist mjög hratt og kláraðist svo eftir leikinn í gær,“ sagði Arnar en Glenn lék seinni hálfleikinn þegar ÍBV tapaði 3-0 fyrir Íslandsmeisturum Stjörnunnar í gær.

Sjá einnig: Formaður knattspyrnudeildar ÍBV: sameiginleg ákvörðun leikmanns og stjórnar

„Vonandi nær hann sér á strik og verður góð viðbót við okkar hóp og hjálpar þeim sem hafa átt í erfiðleikum með að skora í sumar,“ bætti Arnar við en hvað heillar hann við Glenn?

„Hann er öskufljótur, áræðinn og það er kraftur í honum. Hann er líkamlega sterkur, getur haldið mönnum frá sér og er mjög beinskeyttur. Svo er hann með mjög gott „markarecord“,“ sagði Arnar en Glenn hefur skorað 21 mark í 34 leikjum í deild og bikar á Íslandi.

Arnar segir að Glenn verði í leikmannahóp Breiðabliks þegar liðið sækir KR heim í kvöld og hann vonast til að hann geti spilað 15-30 mínútur í leiknum.

Eins og Vísir greindi frá í síðustu viku fengu Blikar tvo unga leikmenn á reynslu til sín á dögunum; Norðmanninn Tor André Skimmeland og Danann Johannes Ritter.

Arnar segir að Ritter sé farinn til síns heima en Skimmeland sé enn að æfa með Breiðabliki og hugsanlegt sé að félagið muni semja við hann. Það hafi ekkert breyst þrátt fyrir komu Glenns.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Glenn er náttúrulega framherji en hinir eru meiri kantmenn eða framliggjandi miðjumenn. Við vorum alltaf að hugsa um að fá einn framherja og kannski einn sem getur leyst kantstöðurnar eða fremst á miðju,“ sagði Arnar að lokum.

Leikur KR og Breiðabliks hefst klukkan 20:00. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, auk þess sem hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Blikar leigja Glenn af ÍBV

Knattspyrnudeild Breiðabliks og ÍBV hafa náð samkomulagi um leigu á framherjanum Jonathan Ricardo Glenn út þetta keppnistímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×