Erlent

Rannsaka líkamsleifar stúlku vegna hvarfs McCann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Madeleine McCann hvarf árið 2007 þegar hún var í fríi með foreldrum sínum.
Madeleine McCann hvarf árið 2007 þegar hún var í fríi með foreldrum sínum. Vísir
Breskir rannsóknarlögreglumenn hafa sett sig í samband við áströlsk lögregluyfirvöld vegna líkamsleifa ungrar stúlku sem fundust þar í landi um miðjan mánuðinn.

Ýmislegt er talið benda til þess að leifarnar kunni að vera af Madeline McCann, sem hvarf sporlaust í Portúgal fyrir 8 árum síðan.

Að sögn lögregluyfirvalda Ástralíu var stúlkan sem fannst þann 15 júlí síðastliðinn ljóshærð, hvít á hörund og líklega tveggja og hálfs til fjögurra ára gömul. Lík stúlkunnar fannst umvafið heimagerðu teppi í skjalatösku við fjölfarin þjóðveg í suðurhluta landsins og telur ástralska lögreglan að dauða stúlkunnar kunni að hafa borið að einhvern tímann frá upphafi árs 2007.

Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við fjölmiðla í gær að þó svo að litlar líkur séu á að hér sé raunverulega um að ræða líkamsleifar Madeleine McCann yrði ekki hjá því litið að aldur stúlkunnar og áætluð dánarstund hennar héldist í hendur við dularfullt hvarf Madeleine fyrir rúmum átta árum síðan.

Líklega hefur ekki verið fjallað jafn mikið um lítið barn í heimspressunni og bresku telpuna Madeleine McCann sem var þriggja ára gömul þegar hún hvarf sporlaust er hún var í fríi með foreldrum sínum í ferðamannabænum Praia da Luz í Portúgal árið 2007.

Hvarfið vakti gríðarlega athygli fjölmiðla um allan heim og hefur leit að stúlkunni staðið yfir allar götur síðan.

Breskir rannsóknarlögreglumenn hafa fengið þúsundir ábendinga um hvar stúlkan kunni að vera niðurkomin og hafa hundruð manna verið yfirheyrðir vegna meintrar aðildar að hvarfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×