Íslenski boltinn

Ótrúleg endurkoma Fjarðabyggðar gegn Fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjarðabyggð er enn í 3. sæti 1. deildar.
Fjarðabyggð er enn í 3. sæti 1. deildar. mynd/heimasíða kff
Fjarðabyggð og Fram skildu jöfn, 3-3, í fyrsta leik kvöldsins í 1. deild karla.

Fram var með unninn leik í höndunum en staðan í upphafi seinni hálfleiks var 1-3, gestunum frá Reykjavík vil en þeir voru auk þess manni fleiri.

Indriði Áki Þorláksson kom Fram yfir á 8. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir félagið.

Á 31. mínútu fékk Milos Ivankovic, leikmaður Fjarðabyggðar, að líta rauða spjaldið fyrir brot á Gunnari Helga Steindórssyni og aðeins sex mínútum síðar bætti Atli Fannar Jónsson við marki fyrir Fram og staða þeirra orðin vænleg.

Viktor Örn Guðmundsson minnkaði muninn með marki beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks en strax í upphafi þess seinni kom Ernir Bjarnason, lánsmaður frá Breiðabliki, Fram í 1-3.

En Austfirðingar gáfust ekki upp og Brynjar Jónasson minnkaði muninn í 2-3 á 77. mínútu með sínu sjöunda deildarmarki í sumar.

Það var svo Andri Þór Magnússon sem tryggði heimamönnum stig þegar hann jafnaði metin í 3-3 á 83. mínútu.

Fjarðabyggð er enn í 3. sæti deildarinnar, nú með 25 stig, en liðið hefur ekki unnið í þremur leikjum í röð.

Fram er hins vegar í 10. sæti með aðeins 13 stig en liðið hefur ekki unnið leik í mánuð.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×