Íslenski boltinn

Haukur Ingi: Þessi gluggaviðskipti eru mikið lotterí

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Ingi Guðnason ætlar að styrkja Keflavíkurliðið.
Haukur Ingi Guðnason ætlar að styrkja Keflavíkurliðið. mynd/skjáskot
Keflavík á gríðarlega mikilvægan leik í Pepsi-deild karla á sunnudagskvöldiðið þegar liðið mætir Leikni í 11. umferð deildarinnar.

Keflavík er á botni Pepsi-deildarinnar með aðeins fjögur stig eftir tíu leiki og á nú fyrir höndum tvo leiki gegn liðum í fallbaráttunni; Leikni og Víkingi.

„Þetta verður hörkuleikur. Leiknismenn eru mjög skipulagðir og lið sem erfitt er að eiga við. Við erum tilbúnir að leggja það á okkur sem þarf til að vinna þennan leik,“ segir Haukur Ingi í samtali við Vísi.

Keflvíkingar eru byrjaðir að styrkja sig fyrir seinni hluta deildarinnar, en þeir fengu bandaríska framherjann Chucwudi Chijindu til sín á dögunum. Hann verður löglegur þegar félagskiptaglugginn opnar 15. júlí.

„Þessi gluggaviðskipti eru mikið lotterí. Það er mikið sem gerist og mikið af allskonar mönnum sem hafa samband og eru að falbjóða sig. Maður þarf að vanda valið því það er fullt af góðum fótboltamönnum sem skipta um lið í glugganum en þeir smella ekkert alltaf inn í viðkomandi lið,“ segir Haukur Ingi.

Hann segir að Keflavík sé með nokkra leikmenn á blaði og stefnan er að styrkja sig enn frekar.

„Við erum að skoða hvað passar best inn í leikkerfið og liðið og samsetningu hópsins. Svo er þetta alltaf spurning um peninga. Við reynum að vanda valið og svo krossleggja fingur um að lukkan verði nú aðeins með okkur,“ segir Haukur Ingi.

„Við ætlum að styrkja liðið frekar en hópinn. Það er tvennt ólíkt. Ég tel það lykilatriði fyrir okkur að fá menn sem styrkja byrjunarliðið. Þessu erum við að vinna í, en að öllu óbreyttu munum við styrkja liðið,“ segir Hakur Ingi Guðnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×