Íslenski boltinn

Ólafur: Alltaf gott að hafa stóran og breiðan hóp

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar
Ólafur Jóhannesson og lærisveinar hans eru taplausir síðan 20. maí.
Ólafur Jóhannesson og lærisveinar hans eru taplausir síðan 20. maí. vísir/stefán
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var kátur með sigurinn á Stjörnunni á Samsung-vellinum í kvöld. Hann var þó varkár í svörum aðspurður hvort Valsmenn væru búnir að stimpla sig inn í toppbaráttuna.

"Ég veit það nú ekki, mótið er rétt hálfnað. En við erum á góðum stað og í fínni stöðu," sagði Ólafur en Valur hefur ekki tapað leik síðan 20. maí.

"Eins og ég hef margoft sagt erum við búnir spila vel lungann af mótinu," bætti Ólafur við.

Valsmenn byrjuðu leikinn í kvöld illa og lentu undir á 21. mínútu. En þeir komu sér inn í leikinn og jöfnuðu metin sex mínútum síðar. Ólafur var ánægður með viðsnúninginn á leik sinna manna.

"Mér fannst við byrja leikinn mjög illa. Við vorum langt frá mönnunum og þeir fengu mikið pláss.

"Þeir settu mikla pressu á okkur fyrstu 25 mínúturnar en við lagfærðum það og mér fannst við ívið sterkari seinni partinn í fyrri hálfleik og allan seinni hálfleikinn," sagði Ólafur sem sagði aðstæður til knattspyrnuiðkunar hafa verið frábærar í kvöld.

Félagaskiptaglugginn opnar í næstu viku, nánar tiltekið 15. júlí. Ólafur segir að Valur ætli að bæta þremur leikmönnum í hópinn.

"Við erum skoða okkur um og það er mjög líklegt að við tökum þrjá nýja leikmenn. Það er alltaf gott að hafa stóran og breiðan hóp," sagði Ólafur en er hann með einhverjar sérstakar stöður í huga sem þarf að styrkja?

"Ég er ekki búinn að ákveða það, ég er líka að skoða það," sagði Ólafur kankvís að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×