Íslenski boltinn

Sigur í fyrsta leiknum undir stjórn Gunnars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfar bæði karla- og kvennalið Selfoss.
Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfar bæði karla- og kvennalið Selfoss. vísir/ernir
Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu topplið Þróttar, 2-0, í 11. umferð 1. deildar karla í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Selfoss undir stjórn Gunnars Rafns Borgþórssonar sem tók við liðinu af Zoran Miljkovic í síðustu viku.

Ivanirson Silva Oliveira komst Selfossi yfir á 42. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu sem dæmd var á Karl Brynjar Björnsson, varnarmann Þróttar. Karl fékk að líta sitt annað spjald og þar með rautt fyrir brotið.

Staðan var 1-0 í hálfleik en á 53. mínútu kom Ingi Rafn Ingibergsson heimamönnum í 2-0.

Fleiri urðu mörkin ekki og Selfyssingar fögnuðu langþráðum sigri, þeim fyrsta síðan 11. júní.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 12 stig, jafnmörg og HK en betri markatölu.

Þrátt fyrir tapið eru Þróttarar með þriggja stiga forskot á Fjarðabyggð, sem er í 2. sætinu, og fjórum stigum á undan Víkingum frá Ólafsvík sem eru í 3. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×