Fótbolti

Þjálfari Celtic ætlar liðinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Stjarnan og Celtic eigast við í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í dag en þjálfari skoska liðsins, Norðmaðurinn Ronny Deila, segir að markmið félagsins sé einfalt fyrir komandi tímabil.

„Markmiðin eru þau sömu í ár og þau voru í fyrra,“ sagði hann við fjölmiðla ytra. „Við viljum komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og vinna allt sem hægt er að vinna í Skotlandi.“

Celtic varð skoskur meistari og deildarbikarmeistari í fyrra en komst ekki í aðalkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra þrátt fyrir að hafa fengið annað tækifæri eftir að hafa dottið úr leik.

Fyrst tapaði Celtic fyrir Legia Varsjá, samanlagt 6-1, en pólska liðinu var vísað úr keppni vegna mistaka forráðamanna pólska félagsins. Celtic tapaði svo fyrir Maribor frá Slóveníu í lokaumferð forkeppninngar, 4-3.

„Aðalatriðið er að vinna deildina heima svo við komumst aftur í Evrópukeppnina að ári. En það væri afar mikilvægt fyrir okkur að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar,“ sagði Deila. „Það væri gott fyrsta skref. Ef okkur tekst að komast í riðlakeppnina þá getum við rætt um ný markmið.“

Deila hefur nú verið í starfinu í eitt ár en fyrsta verkefni hans með Celtic var að slá KR úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Sem honum tókst.

„Þegar ég kom til starfa vissi ég nánast ekkert um lið mitt. Ég þekkti lítið til andstæðinga okkar og allt var nýtt fyrir mér. En við höfum nú spilað 12-14 leiki í Evrópukeppnum og sú reynsla mun hjálpa mér og öllu liðinu til að vera betur undirbúið í þetta skiptið.“

Leikur Celtic og Stjörnunnar hefst klukkan 18.45 í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×