Íslenski boltinn

„Þorsteinn Már er mjög spenntur fyrir Breiðabliki“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorsteinn Már í leik með KR.
Þorsteinn Már í leik með KR. Vísir/Vilhelm
Þorsteinn Már Ragnarsson gæti verið á leið frá KR eins og áður hefur verið fjallað um en forráðamenn Breiðabliks vonast til að klófesta kappann.

Opnað var fyrir félagaskipti í íslenskum fótbolta í dag og gæti því verið von á tíðindum af þessu máli á næstu dögum eða vikum.

„Við viljum fá hann og vonumst til að það gerist eitthvað í því,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, við Vísi í dag. Breiðablik fékk á sínum tíma leyfi til að ræða við Þorstein Má, eins og önnur félög að sögn Eysteins Péturs.

„En nú er markaðurinn opinn og við erum að skoða þessi mál. Þorsteinn Már er að einbeita sér að verkefni sínu með KR í Evrópukeppninni,“ sagði Eysteinn enn fremur en KR mætir norska liðinu Rosenborg í forkeppni Evrópudeildar UEFA annað kvöld.

Fullyrt hefur verið að Þorsteinn Már sé búinn að ákveða sig og að hann ætli að semja við Kópavogsliðið, sem þarf á framherja að halda.

„Hann er mjög spenntur fyrir Breiðabliki. Við fengum að vita það og vonum auðvitað að hann velji Breiðablik. Við viljum styrkja okkur fram á við og höfum lagt áherslu á að fá Þorstein Má. Við munum skoða aðra möguleika ef það tekst ekki.“

Eins og frægt er var Kristján Flóki Finnbogason nálægt því að semja við Breiðablik fyrir tímabilið en hann valdi svo að ganga til liðs við FH.

Ekki náðist í Þorstein Má við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Hvað eiga liðin í Pepsi-deildinni að gera í glugganum?

Fréttablaðið hefur sett saman þarfagreiningu fyrir liðin tólf í Pepsi-deild karla í fótbolta en félagaskiptaglugginn opnast aftur í dag. Mörg liðanna, á toppi sem botni, gætu grætt mikið á liðstyrk fyrir lokakafla mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×