Íslenski boltinn

Garðar: Fann um leið að boltinn væri á leið í markið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Garðar er kominn með þrjú mörk í Pepsi-deildinni í sumar.
Garðar er kominn með þrjú mörk í Pepsi-deildinni í sumar. vísir/pjetur
Garðar Gunnlaugsson var hetja Skagamanna gegn Stjörnunni í dag, en hann kom inn af bekknum og skoraði jöfnunarmarkið, 1-1.

"Við höfðum trú á þessu allan tímann. Þetta var vel gert hjá okkur," sagði Garðar glaðbeittur við Vísi eftir leikinn.

Stjarnan var betri aðilinn í dag en Skagamenn gáfust ekki upp og uppskáru jöfnunarmark þó heppnin hafi verið með þeim þegar Halldór Orri skaut í stöngina úr vítaspyrnu.

"Þeir fengu sín færi en við börðumst og hættum aldrei. Það var mikill kraftur í okkur og karakter að koma til baka," sagði Garðar.

Markahrókurinn vissi að boltinn væri á leiðinni í netið um leið og hann skaut, en hann fékk sendingu í gegnum vörnina frá Jóni Vilhelm Áksyni og afgreiddi færið sitt vel.

"Ég fann það bara þegar ég hitti hann að ég var að fara að skora. Þetta er eins og í golfinu; maður veit að höggið er gott um leið og maður slær," sagði hann.

Garðar er að koma til baka úr meiðslum en hvenær verður hann klár í að spila 90 mínútur?

"Vonandi bara í næsta leik. Gulli verður að taka ákvörðun um það samt," sagði Garðar Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×