Íslenski boltinn

Pepsi-deildin í dag | Barist á toppi og botni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Heiðar hefur ekki leikið með ÍBV síðan 2004.
Gunnar Heiðar hefur ekki leikið með ÍBV síðan 2004. vísir/getty
Þrír leikir fara fram í 12. umferð Pepsi-deildar karla í dag.

Tólfta umferðin hófst í gær þegar Stjarnan og ÍA skildu jöfn 1-1 á Samsung-vellinum í Garðabæ. Umfjöllun, viðtöl og einkunnir úr leiknum má finna hér og mörkin úr leiknum má sjá hér.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir ÍBV í 11 ár þegar Eyjamenn fá Fjölni í heimsókn á Hásteinsvöll í fyrsta leik dagsins.

Eyjamenn eru í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með átta stig, einu stigi frá öruggu sæti, og þurfa því nauðsynlega á sigri að halda.

Loftið hefur farið úr Fjölnisblöðrunni að undanförnu en Grafarvogsliðið hefur tapað fjórum leikjum í röð, þremur í deild og einum í bikar. Liðið er samt sem áður í 5. sæti deildarinnar með 17 stig.

Fjölnir mun að öllum líkindum tefla fram tveimur nýjum leikmönnum gegn ÍBV; spænska miðverðinum Jonatan Neftalí, sem er ætlað að fylla skarðið sem Daniel Ivanovski skildi eftir sig, og Kennie Chopart sem lék með Stjörnunni 2012 og 2013.

Fjölnir vann fyrri leik liðanna, 1-0, með marki Þóris Guðjónssonar.

Milos stýrir Víkingi einsamall í fyrsta sinn gegn Keflavík í kvöld.vísir/andri marinó
Í Víkinni mætast Víkingur og Keflavík í miklum fallslag. Víkingar unnu fyrri leik liðanna suður með sjó en hafa síðan þá einungis unnið einn leik í deildinni. Þeir eru í 10. sæti með níu stig, einu stigi frá fallsæti.

Leikurinn í kvöld er sá fyrsti hjá Víkingum eftir að Ólafur Þórðarsson var rekinn frá félaginu. Milos Milojevic, sem þjálfaði liðið með Ólafi, er tekinn alfarið við Víkingum og það verður spennandi að sjá hvaða áhrif þessar breytingar hafa á gengi Fossvogsliðsins.

Staða Keflavíkur er öllu verri en liðið er aðeins með fimm stig eftir fyrri umferðina og er sem stendur fjórum stigum frá öruggu sæti. Tapi Keflvíkingar í kvöld er staða þeirra orðin ansi svört en í næstu tveimur leikjum mæta þeir FH og Breiðabliki.

Spánverjinn Samuel Jimenez Hernandez tekur út leikbann hjá Keflavík en Farid Zato gæti þreytt fraumraun sína með liðinu í kvöld. Þá leikur Serbneski framherjinn Vladimir Tufegdzic væntanlega sinn fyrsta leik með Víkingi í kvöld.

Gary Martin skoraði sigurmark KR í bikarleiknum gegn FH.vísir/andri marinó
Í Kaplakrika mætast svo FH og KR í uppgjöri toppliðanna. Fyrir leikinn er FH með eins stigs forskot á KR og með sigri ná Hafnfirðingar fjögurra stiga forystu á toppnum, allavega tímabundið, en liðin í 3. og 4. sæti, Breiðablik og Valur, leika á morgun.

Vinni KR-ingar skjótast þeir á toppinn í fyrsta sinn í sumar. KR hefur unnið þrjá síðustu deildarleiki sína án þess að fá á sig mark en KR-ingar hafa alls sex sinnum haldið hreinu í deildinni en FH aðeins tvisvar. FH-ingar hafa hins vegar skorað fleiri mörk; 25 gegn 19 KR-inga.

Bæði lið töpuðu Evrópuleikjum sínum á fimmtudaginn; FH fyrir Inter Bakú frá Aserbaísjan og KR laut í gras fyrir norska stórliðinu Rosenborg.

Steven Lennon, framherji FH, missti af leiknum á fimmtudaginn vegna meiðsla en óvíst er hvort hann verður með Fimleikafélaginu í kvöld.

Hjá KR ríkir óvissa með umtalaðasta leikmann íslenska boltans, Þorstein Má Ragnarsson, en hann fór meiddur af velli í fyrri hálfleik gegn Rosenborg. Verði Þorsteinn ekki með koma annað hvort Gary Martin eða Hólmbert Aron Friðjónsson inn í byrjunarliðið en sá síðarnefndi gæti leikið sinn fyrsta deildarleik fyrir KR í kvöld.

FH vann fyrri leik liðanna í Pepsi-deildinni með þremur mörkum gegn engu en KR-ingar hefndu fyrir tapið með því að slá Fimleikafélagið úr leik í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins fyrir tveimur vikum.

Hægt verður að fylgjast með öllum leikjum dagsins í beinni textalýsingu á Vísi og þá verður leikur FH og KR sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19:00. Tólfta umferðin verður svo gerð upp í Pepsi-mörkunum klukkan 22:00 á morgun.

Leikir dagsins:

17:00 ÍBV - Fjölnir

19:15 Víkingur - Keflavík

20:00 FH - KR


Tengdar fréttir

Kristinn og Kristinn bestir í fyrri umferðinni

Aðeins tveir leikmenn í Pepsi-deildinni náðu sjö í meðaleinkunn í einkunnagjöf Fréttablaðsins í fyrri umferðinni sem kláraðist á mánudagskvöldið. Besti leikmaður fyrstu ellefu umferðanna heitir Kristinn Freyr Sigurðsson og kemur úr spútnikliðinu frá Hlíðarenda.

Gunnar Heiðar: Krossalistinn minn kláraður

Gunnar Heiðar Þorvaldsson er kominn heim til Eyja eftir ellefu ára fjarveru. Mikill liðsstyrkur fyrir ÍBV. Hann lofar að spila leik að þessu sinni og ætlar ekki að hætta fyrr en hann vinnur eitthvað með Eyjaliðinu.

Hvað eiga liðin í Pepsi-deildinni að gera í glugganum?

Fréttablaðið hefur sett saman þarfagreiningu fyrir liðin tólf í Pepsi-deild karla í fótbolta en félagaskiptaglugginn opnast aftur í dag. Mörg liðanna, á toppi sem botni, gætu grætt mikið á liðstyrk fyrir lokakafla mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×