Íslenski boltinn

Hafrún sú fyrsta í tíu mörk í íslenska boltanum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafrún Olgeirsdóttir lék með Þór/KA undanfarin ár.
Hafrún Olgeirsdóttir lék með Þór/KA undanfarin ár. Mynd/ÞórTV
Hafrún Olgeirsdóttir, leikmaður Völsungs í 1. deild kvenna, skoraði fernu í kvöld þegar Völsungur vann 7-0 sigur á Sindra í C-riðli 1. deildar kvenna.

Hafrún varð um leið sú fyrsta í efstu tveimur deildum karla og kvenna á Íslandi til þess að skora tíu mörk á þessu tímabili.

Hafrún hefur skorað 10 mörk í 6 fyrstu leikjum Völsungsliðsins í 1. deildinni í sumar en Völsungur er með fullt hús og 42 mörk í plús eftir þessa sex leiki.

Hafrún hefur skorað að minnsta kosti eitt mark í öllum leikjum liðsins. Hún gerði fernu í kvöld, tvennu í einum leik og svo eitt mark í hinum fjórum leikjum Völsungs.

Berglind Ósk Kristjánsdóttir, liðsfélagi Hafrúnar hjá Völsungi, var með eins marks forskot fyrir leikinn í kvöld en tvö mörk frá henni voru ekki nóg til að halda efsta sæti markalistans. Berglind Ósk er því með níu mörk.

Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður toppsliðs Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna, er líka kominn með níu mörk en hún hefur tveggja marka forskot á listanum yfir markahæstu konurnar í Pepsi-deildinni.

Valsmaðurinn Patrick Pedersen er markahæstur í Pepsi-deild karla með átta mörk en Þróttarinn Viktor Jónsson er markahæstur í 1. deild karla með sjö mörk.

Flest mörk í efstu tveimur deildum karla og kvenna á Íslandi:

Hafrún Olgeirsdóttir, Völsungur (1. deild kvenna)    10

Berglind Ósk Kristjánsdóttir, Völsungur (1. deild kvenna)    10

Fanndís Friðriksdóttir, Breiðabliki (Pepsi-deild kvenna)    9

Patrick Pedersen, Valur (Pepsi-deild karla) 8

Telma Hjaltalín Þrastardóttir, Breiðabliki (Pepsi-deild kvenna)    7

Viktor Jónsson, Þróttur (1. deild karla)    7




Fleiri fréttir

Sjá meira


×