Íslenski boltinn

Hólmbert Aron búinn að skrifa undir samning við KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson lék síðast með danska liðinu Bröndby.
Hólmbert Aron Friðjónsson lék síðast með danska liðinu Bröndby. Vísir/Getty
Hólmbert Aron Friðjónsson hefur gengið frá tveggja og hálfs árs samning við KR og verður löglegur með Vesturbæjarliðinu í Pepsi-deildinni þegar glugginn opnar 15. júlí næstkomandi.

Hólmbert Aron var í viðræðum við bæði Val og Breiðablik en ákvað að semja við KR.

KR-liðið hefur verið í vandræðum með að skora mörk upp á síðkastið og liðið var sem dæmi með undir mark að meðaltali í deildarleikjum sínum í júnímánuði.

Hólmbert Aron ætti að geta bætt úr því vandmáli en fyrsti leikur hans verður mögulega á móti FH á Kaplakrikavelli 19. júlí næstkomandi.

Hólmbert Aron er 22 ára framherji sem er uppalinn hjá HK en spilaði með Fram áður en hann fór út í atvinnumennsku eftir 2013 tímabilið.

Hólmbert Aron fann sig ekki hjá Celtic eða danska liðinu Bröndby þar sem hann var á láni og snýr nú aftur heim í Pepsi-deildina þar sem hann skoraði 10 mörk í 21 leik sumarið 2013.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×