Innlent

Afhentu batamiðstöð Landspítalans á Kleppi tæpar 22 milljónir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/ernir
Keppendur í WOW Cyclothon afhentu í dag Maríu Einisdóttur, framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítala 21.728.250 krónur. Peningurinn safnaðist í keppninni sem fór fram í síðustu viku. Yfir þúsund manns tóku þátt í WOW Cyclothon og hjóluðu hringinn.

Í fyrra söfnuðust um fimmtán milljónir króna til styrktar tækjakaupum fyrir bæklunarskurðdeild Landspítalans en í ár rennur peningurinn til uppbyggingar á batamiðstöð geðsviðs Landspítalans á Kleppi.

Sigurvegarar í áheitasöfnuninni urðu liðin fjögur frá Hjólakrafti en þau söfnuðu samtals 1.034.500 en fast á hæla þeim fylgdi lið MP banka með 1.021.000 krónur.

„Það dylst engum að góð líkamleg heilsa og hreyfing skiptir sköpum fyrir lífsgæði fólks. Fólk  með geðfötlun á þó því miður oft erfitt með að huga að sinni líkamlegu heilsu á sama tíma og það glímir við mikla geðræna og tilfinningalega erfiðleika.  Aðstoð við það getur því skipt sköpum í lífi fólks.  Að veita hverjum og einum þann stuðning sem til þarf, ráðgjöf og val um ólíkar leiðir til heilsueflingar tryggir aukin lífsgæði og er því lykilatriði í öflugri og persónumiðaðri geðheilbrigðiþjónustu,“ segir María Einisdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×