Íslenski boltinn

Líklegt að Valur kveðji Hlíðarenda í ágúst

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valsmenn eiga líklega bara tvo leiki eftir að Hlíðarenda í sumar.
Valsmenn eiga líklega bara tvo leiki eftir að Hlíðarenda í sumar. vísir/valli
Gervigras verður lagt á Vodafone-völlinn, heimavöll Vals í Pepsi-deild karla, í sumar eins og greint hefur verið frá.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, sagði í Borgunarmörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöldi að hann býst við því síðar í mánuðinum.

„Það er ekki búið að klára samninginn við Reykjavíkurborg. Við vitum ekki nákvæma dagsetningu fyrr en það klárast,“ segir Jóhann Már Helgason, framkvæmdastjóri Vals, við Vísi.

„Verktakar eiga líka eftir að taka við verkinu. Við ætlum að vera sem lengst á Vodafone-vellinum en það verður að byrja á þessu ekki seinna en í ágúst,“ segir Jóhann.

Framkvæmdastjórinn reiknar með að Valur spili heimaleik liðsins gegn Víkingi í Pepsi-deildinni á Vodafone-vellinum 26. júlí og líklega leikinn í undanúrslitum bikarsins 29. eða 30. júlí fái Valsmenn heimaleik.

Eftir það fara Valsmenn að öllum líkindum á Laugardalsvöllinn þar sem liðið hafði heimili á meðan verið var að byggja Vodafone-völlinn.

Hlíðarendapiltar eiga góðar minningar frá Laugardalsvellinum í efstu deild, en þar unnu þeir sinn síðasta Íslandsmeistaratitil árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×