Viðskipti erlent

Mikill órói á fjármálamörkuðum vegna ástandsins í Grikklandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Örtröð myndaðist við gríska banka um helgina þegar almenningur reyndi að taka út eins mikið fé og hægt var.
Örtröð myndaðist við gríska banka um helgina þegar almenningur reyndi að taka út eins mikið fé og hægt var. vísir/getty
Fjármálamarkaðir um allan heim leika á reiðiskjálfi vegna ástandsins í Grikklandi. FTSE 100-vísitalan lækkaði um meira 150 stig, eða um meira en 2 prósent, þegar markaðir í London opnuðu í morgun.

Þá varð enn meiri lækkun á mörkuðum í Frakklandi og Þýskalandi, eða um 4 prósent. Hlutabréfaverð í evrópskum bönkum féll um allt að 10 prósent, að því er fram kemur í frétt á vef Guardian.

Í nótt var mikill órói á mörkuðum í Asíu. Nikkei-vísitalan í Tókýo lækkaði um 3 prósent og í Hong Kong lækkuðu hlutabréf um 2,5 prósent.

Gríska kauphöllin opnar ekki í dag og þá verða bankar í Grikklandi lokaðir alla þessa viku. Gríska ríkisstjórnin tók þá ákvörðun í kjölfar þess að Seðlabanki Evrópu ákvað að lengja ekki í línu neyðaraðstoðar til handa bönkunum svo þeir gætu haldið starfsemi sinni áfram.

Í yfirlýsingu sem ríkisstjórn Grikklands sendi frá sér kemur fram að það sé gríðarlega nauðsynlegt að vernda fjármálakerfi landsins þar sem greiðslugeta þess sé hverfandi. Þá munu Grikkir ekki tekið út meira en 60 evrur á dag af bankareikningum sínum, eða um 8.800 krónur.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í Grikklandi þann 5. júlí næstkomandi um kröfur lánadrottna gríska ríkisins. Á morgun á gríska ríkið svo að standa skil á 1,6 milljarða evra láni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem það á ekki fyrir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×