Íslenski boltinn

Kristján vill ekki tjá sig um brottvikninguna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján er fyrsti þjálfarinn sem fær að taka pokann sinn í Pepsi-deildinni í sumar.
Kristján er fyrsti þjálfarinn sem fær að taka pokann sinn í Pepsi-deildinni í sumar. vísir/pjetur
Eins og greint var frá á Vísi fyrr í kvöld hefur Kristjáni Guðmundssyni verið sagt upp störfum sem þjálfari Keflavíkur í Pepsi-deild karla. Þorsteinn Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, staðfesti brottreksturinn svo í samtali við Fótbolta.net í kvöld.

Kristján sagðist ekki vilja tjá sig um brottvikninguna þegar Vísir leitaði eftir því nú rétt í þessu.

Leikmenn Keflavíkurliðsins fengu fréttirnar nú undir kvöldið eftir að stjórnin hafði komist að niðurstöðu um brottreksturinn og sagt Kristjáni og Mána Péturssyni, aðstoðarmanni hans, upp störfum.

Samkvæmt frétt á Fótbolta.net var Gunnari Magnúsi Jónssyni, öðrum aðstoðarmanni Kristjáns, ekki rekinn. Hann stýrir æfingu liðsins í kvöld.

Keflavík hefur byrjað tímabilið skelfilega, en það er á botninum í Pepsi-deildinni með aðeins eitt stig eftir sex umferðir og markatöluna, 3-14.

Dropinn sem fyllti mælinn var líklega 5-0 tap Keflavíkur gegn KR í 32 liða úrslitum Borgunarbikarsins í gærkvöldi, en Keflavík er búið að spila tvo leiki við KR á skömmum tíma og tapa þeim samanlagt, 9-0.

Kristján tók við Keflavík öðru sinni snemma á tímabilinu 2013, en hann þjálfaði áður liðið frá 2005-2009. Hann var hársbreidd frá því að vinna Íslandsmeistaratitilinn með liðið 2008 en hann gerði Keflavík að bikarmeisturum árið 2006 og fór aftur í bikarúrslit í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×