Fótbolti

Jafnar Enrique árangur Guardiola?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Argentínumennirnir Lionel Messi og Carlos Tevez verða í aðalhlutverkum í Berlín í kvöld.
Argentínumennirnir Lionel Messi og Carlos Tevez verða í aðalhlutverkum í Berlín í kvöld. vísir/getty
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í fótbolta fer fram á Ólympíuvellinum í Berlín í kvöld þar sem Juventus tekur á móti Barcelona. Leikurinn hefst klukkan 18.45, en útsending á Stöð 2 Sport hefst klukkan 18.00.

Orðið Meistaradeildin á svo sannarlega við í kvöld þar sem Ítalíumeistararnir mæta Spánarmeisturunum. Barcelona er miklu sigurstranglegra liðið, hefur enda verið að spila ótrúlegan fótbolta með MSN-sóknarþríeykið, Messi, Suárez og Neymar, í lygilegu formi.

Barcelona er Spánarmeistari og bikarmeistari og innsiglar þrennuna með sigri í Berlín í kvöld. Takist það jafnar Luis Enrique árangur Peps Guardiola á sinni fyrstu leiktíð og verður mögulega í lok árs með sögulega jafn gott lið og Börsungar voru með árið 2009.

MSN-þrenningin ógurlega með spænska konungsbikarinn sem Barcelona vann um síðustu helgi.vísir/getty
Erfitt að veðja gegn Barca

„Juventus á góðan möguleika,“ segir Guðmundur Benediktsson sem mun stýra upphitun og uppgjöri á leiknum á Stöð 2 Sport.

„Juventus kann betur en flest lið að verjast. Þó að það komi Juve ekkert við þá þurfum við ekki að fara nema 21 ár aftur í tímann þegar Barcelona átti að vinna AC Milan en tapaði, 4-0. Það getur allt gerst,“ segir Guðmundur sem hefur þó meiri trú á Barcelona.

„Auðvitað er erfitt að veðja gegn Barcelona. Það er miklu líklegra. Það er ofboðslega erfitt að veðja gegn liði sem er með MSN-þríeykið í því stuði sem það er. Svo hjálpar það Juventus ekki að besti miðvörðurinn í þriggja manna línu, Giorgio Chiellini, verður ekki með vegna meiðsla.“

Suárez gert Barca best

Þó að Juventus sé gott varnarlið með tvö þaulæfð varnarafbrigði sem liðið notar þarf það að reyna að stöðva Messi, Neymar og Suárez. Það hefur nánast engu liði tekist, en þremenningarnir eru búnir að skora samtals 120 mörk á leiktíðinni. Finnst ykkur þetta ótrúlegt? Það finnst öllum, en flettið þessu bara upp. Þetta er ekki prentvilla.

„Þetta eru náttúrlega ótrúlegar tölur. En þarna er auðvitað Lionel Messi, sem er besti leikmaður allra tíma. Þegar hann er í stuði er ekkert hægt að stöðva hann,“ segir Guðmundur, en Luis Suárez var síðasta púslið.

„Suárez er allt öðruvísi týpa sem er búinn að gera þetta Barcelona-lið að besta liði í Evrópu. Vinnslan í honum eru engu lík og fáséð að svona góðir leikmenn séu líka svona vinnusamir. Hann er á öxlinni – þetta á reyndar ekki við því Chiellini er ekki að spila – á varnarmönnum mótherjanna allan tímann og gerir þá gjörsamlega tryllta,“ segir Guðmundur.

Patrice Evra leikur sinn fimmta úrslitaleik í Meistaradeildinni í kvöld. Þar mætir hann fornum fjanda - Luís Suárez.vísir/getty
Ótrúlegur árangur

Barca-liðið stendur frammi fyrir því að fullkomna þrennuna í kvöld sem fyrr segir. Það er nokkuð ótrúlegt miðað við stöðuna á liðinu í byrjun árs.

„Það var allt í upplausn þarna. Messi var orðaður við félög á Englandi og hann og Neymar settir á bekkinn fyrir tapleik. Þeir voru fúlir og Enrique var talinn á útleið. Þess vegna finnst mér þetta alveg ótrúlegur árangur og vel gert hjá Enrique að rétta úr þessu öllu saman,“ segir Guðmundur.

Enrique kemst á par við Pep

Pep Guardiola vann þrennuna á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Barcelona veturinn 2008/09. Hann bætti svo Stórbikar Evrópu, Stórbikar Spánar og heimsmeistaratitli félagsliða í sarpinn á einu og sama árinu.

Luis Enrique getur jafnað árangur Guardiola yfir eitt tímabil, en ef hann fer alla leið á þessu ári og tekur fleiri titla eins og Guardiola gerði fyrir sex árum, verður hægt að tala um þetta Barca-lið sem það besta í sögunni frekar en 2009-liðið?

„Það er erfitt að segja. Enrique á eftir að vinna allt hitt, en ef hann gerir það á þessu ári er ég tilbúinn að setja hann í sama flokk. Þá mun Barcelona eiga tvö bestu félagslið sögunnar,“ segir Guðmundur Benediktsson.


Tengdar fréttir

Henry: Xavi er herra Barcelona

Xavi spilar sinn síðasta leik fyrir Börsunga í Berlín á laugardaginn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×