Fótbolti

Kosningaloforðið er að halda Enrique hjá Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Enrique vann allt en veit ekki hvað verður um sig.
Luis Enrique vann allt en veit ekki hvað verður um sig. vísir/getty
Luis Enrique, þjálfari Spánar, bikar- og Evrópumeistara Barcelona, þarf ekki að óttast um framtíð sína hjá Katalóníurisanum verði Josep Maria Bartomeu áfram forseti.

Enrique kom nokkuð á óvart með ummælum sínum á blaðamannafundi eftir sigurinn í Meistaradeildinni þar sem Barcelona lagði Juventus.

„Sannleikurinn er sá að framtíð mín er í óvissu. En nú er allt bara hamingja,“ sagði þjálfarinn.

Samkvæmt fréttum á Spáni seinni hluta leiktíðar eru Enrique og Lionel Messi engir perluvinir og hefur því lengi verið haldið fram að Messi hafi ýmislegt um það að segja hvernig liðinu sé stjórnað.

Enrique þarf þó ekki að hafa áhyggjur af framtíð sinni verði Josep Maria Bartomeu áfram forseti Barcelona.

„Ef ég verð kosinn forseti aftur verður eitt af mínum fyrstu verkum að halda Luis Enrique. Hann á enn eftir að gera fullt fyrir Barcelona,“ sagði Bartomeu við RAC1.

Luis Enrique er nú þegar byrjaður að styrkja hópinn fyrir átökin næsta vetur, en hann átti þátt í að fá bakvörðinn Aleix Vidal til félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×