Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur 1 - 3 Selfoss | Valsstúlkur réðu illa við hraða Selfyssinga

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Selfyssingar skoruðu þrjú í kvöld.
Selfyssingar skoruðu þrjú í kvöld. Vísir/Ernir
Stúlkurnar í Pepsi-deildar liði Selfyssinga héldu í víking yfir Hellisheiðina í dag og snúa til bara vígreifar með þrjú stig í fararteskinu. Valsstúlkur urðu fórnarlömb þeirra í dag.

Leikið var á Hlíðarenda á grámyglulegum Reykvískum sumardegi. Selfyssingar höfðu unnið þrjá leiki í röð eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum en Valsstúlkur unnu fyrstu þrjá leikina og töpuðu þeim fjórða.

Strax eftir örfáar sekúndur var Elín Metta Jensen, markahæsti leikmaður deildarinnar fyrir leikinn, hársbreidd frá því að skora en Chane Sandiford sá glæsilega við henni.

Strax í næstu sókn voru heimastúlkur orðnar marki undir. Donna Kay Henry hirti boltann af vinstri bakverðinum Mariu Selmu Haseta, lagði hann inn fyrir á fyrirliðann Guðmundu Brynju Óladóttur sem skoraði í slánna og inn.

Eftir markið voru næstu mínútur nánast einstefnugata í átt að marki Valsmanna. Selfyssingar náðu ítrekað að sprengja vörn Valsmanna upp og voru klaufar að bæta ekki við marki. Leikurinn róaðist töluvert eftir hálftíma leik og var staðan eitt núll í hálfleik.

Á fyrstu tuttugu mínútum síðari hálfleiksins fengu Valsarar á sig tvö mörk og þau er bæði hægt að skrifa á markvörðinn Þórdísi Maríu Aikman. Í bæði skiptin fór hún í skógarhlaup og skyldi markið eftir nokkuð óvarið. Fyrra markið skoraði Dagný Brynjarsdóttir með skalla eftir aukaspyrnu en hitt skoraði Donna Kay Henry eftir snaggaralega sókn.

Við það að fá þriðja markið á sig virtust Valsstelpurnar ranka við sér en það var eiginlega of lítið og of seint. Vesna Elísa Smiljkovic skoraði mark þegar tuttugu mínútur lifðu leiks en nær komust þær ekki.

Skömmu eftir markið fékk Elín Metta Jensen að vísu sannkallað dauðafæri til að minnka muninn í eitt mark og gefa Valsstelpum tækifæri í á að gera atlögu að jafntefli undir lok leiksins en skot hennar var afar slakt úr stórgóðu færi.

Þrjú eitt sigur gestanna því niðurstaðan í leiknum og verður að segja að hann var verðskuldaður. Framlínan var beitt og sífellt ógnandi og það skemmdi alls ekki fyrir að hafa Dagný Brynjars til að dreifa boltanum fyrir aftan. Dagný bar einnig af þegar kom að því að vinna skallabolta en hún tapaði ekki mörgum slíkum í kvöld.

Valsstúlkur voru ansi ólíkar sér í dag. Í lið þeirra vantaði Katrínu Gylfadóttur sem var með ælupest en ólíklegt er að það eitt og sér hafi skilað þessari frammistöðu. Þær áttu í stökustu vandræðum með að halda boltanum innan liðsins og á stundum hefði maður getað haldið að boltinn væri að brenna þær, svo mikið lá þeim á að koma honum frá sér.

Þær reyndu mikið að koma boltanum langt fram með einhverjum úrslitasendingum og það bar engan árangur. Í vörninni komu augnablik þar sem þær létu teyma sig úr stöðu og gáfu Selfyssingum færi á að nýta sér götin.

Úrslitin þýða að Selfyssingar fara í annað sæti deildarinnar með tólf stig, stigi á eftir Breiðabliki sem lagði Stjörnuna í kvöld. Þar með eru liðin orðin tvö sem hafa unnið Garðbæinga á þessu tímabili. Það eru tveimur fleiri en tímabilið í fyrra.

Valsstelpur eru enn með níu stig og falla niður í fimmta sæti deildarinnar og hafa nú fengið sjö mörk á sig í síðustu tveimur leikjum eftir að hafa fengið aðeins eitt mark á sig í fyrstu þremur leikjunum.

Mist í baráttunni í kvöld.Vísir/ernir
Mist: Uppspilið okkar vantaði algerlega

„Við spiluðum ekkert eins og við viljum spila,“ sagði hálffúl Mist Edvardsdóttir eftir leikinn. „Þetta var ekki okkar spil. Við vorum í einhverjum háloftaboltum og kýlingum og þannig erum við alls ekki bestar. Við töluðum um að laga þetta í hálfleik en það gerðist eiginlega ekki fyrr en það var of seint.“

Þrátt fyrir að hafa gengið illa að spila boltanum á milli sín náðu Valsstelpur að skapa allavega tvö góð færi sem þær misnotuðu. „Mörk breyta leikjum og það hefði skipt öllu máli að ná inn marki strax á eftir því fyrra og setja pressu á þær.“

„Það er erfitt að setja fingur á það núna hvað fór úrskeiðis. Kannski vorum við of uppteknar af ákveðnum færslum í varnarleiknum hjá okkur og gleymdum í kjölfarið að spila sóknarleikinn okkar. Uppspilið vantaði algerlega og við leituðum of mikið að einhverjum úrslitasendingum sem skilaði okkur engu.“

Eftir fullkomna byrjun hefur Valur tapað tveimur leikjum í röð og fengið samtals á sig sjö mörk í tapleikjunum. Fyrirliðinn vill þó ekki meina að liðið hafi verið of hátt uppi fyrir leikina.

„Það er vont að fá á sig svona mörg mörk og við ætluðum svo sem að laga það í þessum leik. Við vorum of uppteknar af því. Mögulega er sóknin besta vörnin og við verðum einfaldlega að einbeita okkur að því að skora fleiri mörk en andstæðingurinn,“ sagði Mist að lokum.

Guðmunda: Höfum tapað og það var ömurlegt

„Þetta var toppslagur og það var nauðsynlegt að fá sigur hér til að halda okkur við toppinn,“ sagði fyrirliðinn Guðmunda Brynja Óladóttir í lok leiks.

Guðmunda skoraði fyrsta mark leiksins og er nú komin upp að hlið Elínar Mettu og Vesnu Smiljkovic í markaskorun en þær hafa allar skorað fimm mörk. „Ég hefði viljað sjá fleiri í netinu frá mér en það skiptir svo sem ekki öllu úr því að við unnum. En maður vill alltaf seta pressu á hinar stelpurnar sem eru að skora mörk.“

„Við lögðum upp með það sama og við gerum eiginlega alltaf. Við viljum pressa hátt og gefa hinum liðunum engan tíma á boltanum og það skilaði allavega tveimur mörkum í dag. Þannig við getum sagt að það hafði gengið upp,“ sagði fyrirliðinn kátur.

Guðmunda varð fyrir hressilegri tæklingu undir lok fyrri hálfleiks en harkaði af sér með hjálp kælispreys og kláraði rúmlega klukkutíma af leiknum áður en henni var skipt út af.

„Það var orðið mjög erfitt að stoppa sig og hlaupa í restina þannig ég var skynsöm og bað um skiptingu. Það er mikilvægur leikur framundan,“ sagði fyrirliðinn en hún er viss um að hún verði til í slaginn. „Það er flott teymi í kringum okkur þannig ég verð komin í gang. Ef ekki eru frábærar stelpur sem geta tekið minn stað en nudd og rólegheit ætti að græja ökklann.“

Líkt og áður segir eru Selfyssingar í öðru sæti deildarinnar og Guðmunda telur að liðið geti haldið áfram af krafti í toppbaráttunni. Hún hefur litlar skýringar á því hvað gerðist í fyrstu umferðinni gegn Fylki.

„Það var eitthvað panikk og smá kæruleysi. Við kunnum núna að tapa og vitum að það er ömurleg tilfinning sem við viljum ekki finna aftur. Við höfum sýnt í síðustu leikjum að við eigum skilið að vera hérna uppi og ég er viss um að við erum með hóp til að klára hérna uppi.“

„Við ætlum að gera betur en í fyrra. Þá enduðum við í fjórða svo það er topp þrír á okkur.“

vísir/ernir
Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×