Íslenski boltinn

Kveikir appelsínuguli liturinn í Gary Martin?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Martin.
Gary Martin. Vísir/Stefán
Fylkir tekur á móti KR í lokaleik 4. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

KR-ingurinn Gary Martin er líklegur til afreka í kvöld en hann hefur verið duglegur að skora á móti Fylkisliðinu undanfarin tvö sumur eða samtals sex mörk í síðustu fjórum leikjum.

Gary Martin skoraði reyndar bara eitt mark í tveimur leikjum á móti Fylki í fyrrasumar en hann átti mjög góðan leik í seinni leiknum á Fylkisvellinum þar sem KR vann 4-0 sigur.

Martin gerði með því betur en allt Fylkisliðið sem skoraði ekki á 180 mínútum á móti KR í Pepsi-deildinni 2014.

Sumarið 2013 skoraði Gary Martin aftur á móti fimm mörk í tveimur leikjum við Fylki þar á meðal þrennu í leik liðanna á Fylkisvellinum.

KR-ingar tóku líka öll tólf stigin í boði í leikjum sínum við Fylki síðustu tvö sumur og markatalan er 12-3 KR-ingum í hag.

Gary Martin er því búinn að skora tvöfalt meira en allt Fylkisliðið í síðustu fjórum innbyrðisleikjum KR og Fylkis.

Leikur Fylkis og KR hefst klukkan 20.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin frá Fylkisvellinum hefst klukkan 19.30. Guðjón Guðmundsson og Logi Ólafsson lýsa í kvöld.

Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×