Íslenski boltinn

Heimir: Vorum miklu betri í leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar
vísir/vilhelm
Heimi Guðjónssyni, þjálfara FH, fannst sínir menn eiga meira skilið en eitt stig gegn Stjörnunni í kvöld.

"Mér fannst við miklu betri í þessum leik og fengum góð tækifæri til að skora eftir að við jöfnuðum metin. Mér fannst við verðskulda öll þrjú stigin," sagði Heimir sem var ekki ánægður með einbeitingarleysi sinna manna í byrjun leiks þegar Stjörnumenn komust yfir með marki Ólafs Karls Finsen.

"Við byrjuðum ekki nógu vel, gerðum mistök og þeir náðu að færa boltann frá vinstri til hægri. Þeir eru hættulegir þegar þeir ná að skipta boltanum á milli kanta og við dekkuðum ekki nógu vel inni í teig.

"En við unnum okkur vel inn í leikinn, sköpuðum góð færi og erum svolítið súrir að hafa ekki nýtt þau," sagði Heimir ennfremur. Hann sagði það viðbúið að Kassim Doumbia skyldi skora í endurkomuleiknum en Malí-maðurinn jafnaði metin á 60. mínútu.

"Það var alltaf klárt. Ég er aðallega svekktur að hann skyldi ekki skora tvö, það voru forsendur fyrir því," sagði Heimir léttur.

Þrátt fyrir að stigið í kvöld skili FH á topp Pepsi-deildarinnar hefði Heimir viljað sjá fleiri stig í sarpinum.

"Mótið er náttúrulega nýbyrjað. Við hefðum viljað vera með meira en 10 stig. Tólf hefði verið betra. En þetta er erfiður útivöllur og við þurfum að sætta okkur við þetta," sagði Heimir að lokum.


Tengdar fréttir

Dagurinn hans Doumbia

Fréttablaðið fékk Hjörvar Hafliðason úr Pepsi-mörkunum til að velta fyrir sér stórleik kvöldsins þegar FH-ingar heimsækja Íslandsmeistara Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×