Fótbolti

Guardiola: Ég hef sagt þetta tvö hundruð milljón sinnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Vísir/Getty
Pep Guardiola, þjálfari þýska stórliðins Bayern München, segir að hann verði áfram með liðið á næsta tímabili þrátt fyrir stanslausan orðróm um að hann sé að fara til Manchester City.

Bayern München er fyrir nokkru búið að tryggja sér þýska meistaratitilinn en liðið er aftur á móti á leið út úr Meistaradeildinni eftir 3-0 tap í fyrri undanúrslitaleiknum á móti Barcelona og tapaði einnig í undanúrslitum þýska bikarsins á móti Borussia Dortmund.

Bayern München tekur á móti Barcelona á morgun í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og Pep Guardiola var mættur á blaðamannafund fyrir leikinn þar sem hann var enn á ný spurður út í framtíðina.

„Ég hef sagt þetta tvö hundruð milljón sinnum. Ég verð hérna á næsta tímabili. Þannig verður þetta," sagði hinn 44 ára gamli Pep Guardiola.

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum. Ég verð hjá Bayern á næsta tímabili," sagði Guardiola.

Um leið og fréttirnar af Pep Guardiola og framtíð hans hafa verið áberandi í evrópskum fjölmiðlum þá hefur gengi Bayern München verið dapurt. Liðið hefur nú tapað fjórum leikjum í röð þar af tveimur í röð í þýsku deildinni án þess að skora mark.

Það er því kannski ekkert skrítið að Pep Guardiola sé spurður út í framtíð sína á hverjum blaðamannafundi þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×