Enski boltinn

Bróðir Adebayors stelur öllu steini léttara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emmanuel er ekki sáttur.
Emmanuel er ekki sáttur. vísir/getty
Emmanuel Adebayor, framherji Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, skrifaði reiðipistil á Facebook-síðu sína um bróður sinn, Rotimi.

Sá er mikill þjófur virðist vera, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem Tógómaðurinn notar opinbera Facebook-síðu sína til að skammast yfir systkinum sínum.

„Árið 2002 fór ég í Afríkukeppnina í Malí og varð þess heiðurs aðnjótandi að skipta á treyjum við Marc-Vivien Foé. Megi hann hvíla í friði,“ segir Adebayor, en Foé, sem var landsliðsmaður Kamerún, lést í miðjum leik í Álfukeppninni ári síðar.

„Þegar ég kom aftur til Tógó setti ég þá treyju á öruggan stað, en bróðir minn fann leið til að stela henni og seldi hana svo.“

„Þegar ég fór frá Metz til Monaco komumst við í Meistaradeildina og spiluðum þar gegn Real Madrid. Ég var svo heppinn að fá treyju Zidane áritaða, en bróðir minn stal henni líka og seldi.“

Adebayor hélt áfram að skammast yfir bróður sínum sem lagðist svo lágt að stela af móður þeirra.

„Þegar ég var hjá Metz fékk ég 15.000 evrur í laun á mánuði. Ég vildi gefa móður minni eitthvað sérstakt fyrir allt sem hún gerði fyrir mig. Ég vildi gleðja hana,“ segir Adebayor.

„Ég ákvað nota þriggja mánaða laun og kaupa handa henni Cartier-hálsfesti. Hún kostaði 45.000 evrur. Rotimi og félagar hans, Akim og Tao, stálu henni og seldu fyrir 800 evrur,“ segir Emmanuel Adebayor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×