Íslenski boltinn

Atli: Kom ekkert annað til greina en Breiðablik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli gæti spilað sinn fyrsta leik með Breiðabliki á sunnudaginn.
Atli gæti spilað sinn fyrsta leik með Breiðabliki á sunnudaginn. vísir/stefán
„Ég hef alltaf verið hrifinn af spilamennsku Breiðabliks. Þeir spila flottan og skemmtilegan bolta, eins og ég vil spila fótbolta. Ég er mjög spenntur fyrir því að byrja að spila hérna,“ sagði Atli Sigurjónsson í samtali við Vísi aðspurður um ástæðu vistaskiptanna frá KR til Breiðabliks.

Atli, sem er 23 ára miðjumaður, skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik í dag en hann hafði leikið með KR frá árinu 2011. Atli varið einu sinni Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari með KR.

Atli segir þótt önnur lið hafi sýnt honum áhuga hafi Breiðablik alltaf verið efst á blaði.

„Það voru önnur lið sem höfðu samband en fyrir mér kom ekkert annað en Breiðablik til greina,“ sagði Atli og bætti því við að Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, hafi haft mikið með þessa ákvörðun að gera.

„Hann heillaði mig og ég hlakka til að byrja að vinna með honum.“

Atli var meiddur á undirbúningstímabilinu og kom ekkert við sögu í fyrstu tveimur leikjum KR í Pepsi-deildinni. Hann segir að hann sé í góðu formi og tilbúinn að spila.

„Ég er í fínu formi og tilbúinn í slaginn, það er alveg á hreinu,“ sagði Atli en sá hann fram á að fá meiri spilatíma hjá Breiðabliki en hjá KR?

„Já, ég vona það. Það er samt ekkert gefið og Blikar eru líka með mjög gott lið og flotta leikmenn þannig að ég verð að standa mig til að komast í liðið,“ sagði Atli sem gæti leikið sinn fyrsta leik í grænu treyjunni þegar Blikar sækja Keflavík heim í 3. umferð Pepsi-deildarinnar á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Atli Sigurjóns til Breiðabliks

Miðjumaðurinn Atli Sigurjónsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×