Íslenski boltinn

Ólafur: Hefðum getað spilað til miðnættis án þess að skora

Tómas Þór Þórðarson á Vodafone-vellinum: skrifar
Ólafur Jóhannesson var ekki kátur með sína drengi.
Ólafur Jóhannesson var ekki kátur með sína drengi. vísir/valli
"Við byrjum leikinn mjög illa og vorum í basli eftir að við fengum á okkur tvö mörk fljótlega í leiknum," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við Vísi eftir tapið gegn Leikni í kvöld.

"Menn voru ekkert dekkaðir inn í teig eins og við fórum yfir. Þeir voru með lausa menn og settu tvö mörk."

Valsmenn voru meira með boltann en sköpuðu sér ekki færi. Hlíðarendapiltar komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Leiknis.

"Við vorum ekkert slæmir á boltanum í sjálfu sér en við vorum ekki líklegir til að skora. Við hefðum getað spilað fram til miðnættis án þess að setja mark," sagði Ólafur svekktur.

"Við höfum svo sem verið að skora fullt af mörkum í leikjunum sem við höfum spilað en þetta er áhyggjuefni núna. Við fengum ekki færi í þessum leik og það er áhyggjuefni."

"Leiknisliðið spilaði mjög vel. Það er með stóra og sterka menn í vörninni."

Ólafur var óánægður með hvernig sínir menn komu inn í leikinn, en það réði úrslitum að hans mati.

"Við vorum ekki 100 prósent klárir þegar við komum til leiks og það varð okkur að falli. Það er bara þannig," sagði Ólafur Jóhannesson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×