Fótbolti

Jón Daði og Steinþór með sjö stoðsendingar saman í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson átti þátt i fimm mörkum í kvöld.
Jón Daði Böðvarsson átti þátt i fimm mörkum í kvöld. Vísir/Anton
Íslensku leikmennirnir Jón Daði Böðvarsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson voru allt í öllu í sóknarleik Viking í kvöld þegar liðið komst áfram í 32 liða úrslit norsku bikarkeppninnar.

Jón Daði lagði upp fjögur mörk auk þess að skora eitt í 9-0 útisigri á D-deildarliðinu Varegg frá Bergen og Steinþór Freyr Þorsteinsson átti síðan þrjár stoðsendingar. Íslensku leikmennirnir lögðu því upp sjö mörk saman og áttu þátt í öllu mörkunum nema einu.

Mark Jóns Daða kom Viking-liðinu í 6-0 á 69. mínútu leiksins en þá var hann þegar búinn að gefa þrjár stoðsendingar. Nígeríumaðurinn Osita Henry Chikere skoraði fimm mörk í leiknum og í öllum mörkunum var það Íslendingur sem átti stoðsendinguna á hann.

Jón Daði lagði upp tvö fyrstu mörk leiksins, á 27. og 31. mínútu og Steinþór Freyr lagði síðan upp þriðja markið á 36. mínútu. Þriðja stoðsending Jóns Daða kom síðan á 42. mínútu. Osita Henry Chikere skoraði þrennu í fyrri hálfleiknum allt eftir íslenskar stoðsendingar.

Steinþór lagði upp fjórða mark Osita Henry Chikere á 53. mínútu og Jón Daði lagði síðan upp fimmta mark hans á 74. mínútu en Osita Henry Chikere kom þá Viking-liðinu í 7-0. Steinþór lagði síðan upp lokamarkið á 90. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×