Erlent

Vissu að von var á skjálftanum í Nepal

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Óttast er að um 4500 manns hafi látist í skjálftanum.
Óttast er að um 4500 manns hafi látist í skjálftanum. Vísir/AP
Sérfræðingar vissu að von var á jarðskjálftanum í Nepal en fyrir viku komu fimmtíu jarðskjálftafræðingar til Katmandú í Nepal til þess að komast að því hvernig best væri að undirbúa hið þéttbyggða svæði þar sem húsin eru illa byggð undir hinn stóra skjálfta.

Skjálftinn varð á laugardag og er tala látinna komin yfir 2500 manns. Hann var 7,9 að stærð og upptök hans voru um 80 kilómetra austur af borginni Pokhara á um tveggja kílómetra dýpi.

Samkvæmt Huffington Post vissu sérfræðingarnir að skjálftans var að vænta og vissu að þeir urðu að hafa skjótar hendur en höfðu ekki hugmynd um hversu stutt var í hann. „Þetta var martröð sem við biðum eftir,“ sagði jarðskjálftafræðingurinn James Jackson sem starfar hjá Háskólanum í Cambridge Englandi. „Jarðfræðilega og samkvæmt lögmálum náttúrunnar gerðist nákvæmlega það sem við bjuggumst við að myndi gerast.“ En líkt og áður kom fram bjóst hann ekki við að skjálftinn myndi ríða yfir svo fljótt.

Sjá einnig: Um milljón nepalskra barna þarf brýna neyðaraðstoð

Í raun hefur verið óttast lengi um skjálfta í Katmandú, ekki aðeins vegna lögmála náttúrunnar heldur einnig vegna ástandsins á svæðinu. Sama stærð af skjálfta getur haft gríðarlega mismunandi áhrif á mismunandi stöðum í heiminum. Þessi sama stærðargráða af skjálfta hefði samkvæmt greiningu Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna valdið dauða tíu til þrjátíu manna á hverja milljón íbúa í Kaliforníu en þúsund manns á hverja milljón hjá Nepal. Talan nær allt að tíu þúsund manns í Indlandi, Íran og Kína. Jackson segir þannig að þrátt fyrir að jarðskjálftar verði af náttúrunnar völdum séu afleiðingarnar manngerðar. „Það eru byggingarnar sem drepa fólk, ekki jarðskjálftarnir,“ útskýrir hann. „Vandamálið í Asíu er að fólk hefur safnast saman á hættulegum stöðum.“

Hópur sem skoðar hætturnar víðsvegar um heiminn af jarðskjálftum hafði uppfært skýrslu um hætturnar í Katmandú þann 12. apríl síðastliðinn. „Með árlega fólksfjölgun um 6,5 prósent og með þéttbyggðasta borgarsvæði í heiminum býr fólksfjöldinn í Katmandú við alvarlega og vaxandi jarðskjálftahættu,“ segir í skýrslunni. Um 1,5 milljón búa í Katmandú-dal. Það var því ljóst að afleiðingarnar yrðu jafnhörmulegar og raun ber vitni en samkvæmt forsvarsmanni fyrrnefnds hóps, Hari Ghi, var vandamálið svo stórt að yfirvöld vissu ekki hvar skyldi byrja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×