Innlent

Mæðgurnar taldar hafa verið burðardýr

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Konurnar tvær sem handteknar voru á Keflavíkurflugvelli eru í kringum tvítugt og fertugt.
Konurnar tvær sem handteknar voru á Keflavíkurflugvelli eru í kringum tvítugt og fertugt. Vísir/Anton
Talið er að hollensku mæðgurnar sem handteknar voru á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn langa með 20 kílógrömm af fíkniefnum séu burðardýr. Einn íslenskur karlmaður var einnig handtekinn í aðgerðum lögreglunnar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur frumgreining á efnunum farið fram og í ljós komið að um minnst þrjú mismunandi efni að ræða; kókaín, afmetamín og MDMA, jafnan kallað Mollý. Ekki liggur fyrir hver styrkleiki efnanna er, en slíkt skiptir höfuðmáli þegar kemur að dómum í fíkniefnamálum.

Konurnar eru í kringum tvítugt annars vegar og fertugt hins vegar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um aldur Íslendingsins sem handtekinn var.

Heimildir fréttastofu herma einnig að karlmaðurinn hafi verið handtekinn á hóteli í miðborg Reykjavíkur en það hefur ekki verið staðfest.

Lögregla vill ekki veita upplýsingar um málið umfram það sem kom fram í tilkynningu frá embættinu í morgun. Þar kom fram að málið hefði verið unnið af tollstjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol.

Allir þrír sem handteknir hafa verið vegna málsins hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. apríl næstkomandi. Málið er enn til rannsóknar og segir lögreglan það vera á viðkvæmu stigi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×