Innlent

Velta því fyrir sér hvort Sigmundur og Bjarni séu enn í páskafríi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra voru fjarverandi fyrsta þingfund eftir tveggja vikna páskaleyfi í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra voru fjarverandi fyrsta þingfund eftir tveggja vikna páskaleyfi í dag.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja það sæta furðu að bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skuli vera fjarverandi á fyrsta þingfundi Alþingis eftir tveggja vikna páskaleyfi. Skýringa sé þörf á fréttum síðastliðinna daga.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
„Verkfall BHM stendur yfir. Við lesum fréttir um að þar ríki ástand sem geti ekki talist öruggt fyrir sjúklinga og hæstvirtan forsætisráðherra sem nýtir flokksþing Framsóknarflokksins til að tilkynna okkur hinum, hvort sem er öðrum þingmönnum og almenningi í landinu, að ætlunin sé að aflétta höftum fyrir þinglok. Til þess höfum við hvað? Átján þingfundadaga,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Hér er á ferðinni svo ævintýralega léleg ríkisstjórn að annað eins hefur ekki sést í stjórnmálasögu Íslands,“ sagði Róbert Marshall.vísir/gva
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist hafa freistað þess að fá ráðherrana tvo í þingsal í dag en að hvorugur hefði haft á því kost.

Ævintýralega léleg ríkisstjórn“

Þingmenn Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar og Katrín Júlíusdóttir, kölluðu bæði eftir því að annar óundirbúinn fyrirspurnartími verði haldinn í upphafi þingfundar á morgun þar sem Sigmundi og Bjarna verði gefinn kostur á að svara spurningum. Þeir þurfi í það minnsta að svara fyrir fjarveru sína. Þá veltu því margir fyrir sér hvort þeir væru enn í páskafríi.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði það algjörlega ótækt að forystumenn skyldu vera fjarverandi á þingi eftir svo stórar yfirlýsingar eins og á föstudag. „Það er að teiknast upp sú mynd hér, enn og aftur, að hér er á ferðinni svo ævintýralega léleg ríkisstjórn að annað eins hefur ekki sést í stjórnmálasögu Íslands,“ sagði hann.

Fleiri lögðu orð í belg og sammæltust um það að brýnt væri að halda starfsáætlun. Annað væri vanvirðing við Alþingi.


Tengdar fréttir

Framsóknarmenn ekki séð útfærslu stöðugleikaskattsins

Forsætisráðherra boðaði á flokksþingi Framsóknarflokksins að lagður yrði á stöðugleikaskattur við afnám gjaldeyrishafta. Vigdís Hauksdóttir og Frosti Sigurjónsson, þingmenn Framsóknarflokksins, hafa ekki séð útfærslu skattsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×