Innlent

Opnaði nýtt móttökuhús í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Atli Ísleifsson skrifar
Börn af leikskólanum Laugasól litu við en þau voru nýbúin að skoða hreindýr og pöddur þegar þau hittu borgarstjóra og þáðu djús og veitingar.
Börn af leikskólanum Laugasól litu við en þau voru nýbúin að skoða hreindýr og pöddur þegar þau hittu borgarstjóra og þáðu djús og veitingar. Mynd/Reykjavíkurborg

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði nýtt móttökuhús í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal í morgun. Garðurinn fagnar 25 ára afmæli í maí.



Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að nýja húsið hafi þá kosti að hægt er að sinna gestum garðsins við mun betri aðstæður en áður.



„Nú verður loksins hægt að hafa þjónustu, eins og miða- og minjagripasölu, símavörslu, vörumóttöku og móttöku hópa innandyra. Húsið er 120 fermetrar að stærð. Með byggingu þess er lokið fyrsta áfanga í nokkurra ára uppbyggingaráætlun Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Laugardal.



Borgarstjóri heilsaði upp á starfsfólk garðsins, hönnuði og verktaka sem unnið hafa að nýja húsinu í morgun. Börn af leikskólanum Laugasól litu við en þau voru nýbúin að skoða hreindýr og pöddur þegar þau hittu borgarstjóra og þáðu djús og veitingar.



Móttökuhúsið er fyrsti áfanginn uppbyggingaráætlun garðsins en næstu skref eru opnun nýs vaðleikjasvæðis í fjölskyldugarðinum í maí. Þá mun bygging dýrahúss hefjast í ár sem og hönnun á betri fræðslu- og starfsmannaaðstöðu.



Það er vor í lofti í húsdýragarðinum og hægt að heilsa upp á forvitna nautkálfa í fjósinu, nýklakta kjúklinga í smádýrahúsi og kiðlingar eru væntanlegir í geithúsið á næstu dögum en huðnurnar eru alveg komnar að burði,“ segir í frétt borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×