Íslenski boltinn

Fyrrum leikmaður Manchester City til Stjörnunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Nielsen kemur til að verja mark Stjörnunnar í sumar.
Gunnar Nielsen kemur til að verja mark Stjörnunnar í sumar. mynd/stjarnan
Íslandsmeistarar Stjörnunnar hafa samið við Gunnar Nielsen, landsliðsmarkmann Færeyja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjörnunni.

Gunnar samdi við Garðabæjarliðið út leiktíðina en hann kemur til að fylla skarð Ingvars Jónssonar sem hefur varið mark Stjörnunnar undanfarin ár.

Eftir tímabilið í fyrra hélt Ingvar í víking og samdi við norska liðið Start. Stjörnumenn höfðu gefið það út að þeir ætluðu að treysta á Svein Sigurð Jóhannesson og Arnar Darra Pétursson til að fylla skarð Ingvars en nú er ljóst að af því verður ekki.

Gunnar, sem er 28 ára, hefur farið víða á ferlinum en hann var m.a. á mála hjá Manchester City 2009-2012 og lék einn leik með liðinu í úrvalsdeildinni.

Síðast lék hann með Motherwell í Skotlandi og var í leikmannahópi liðsins þegar það mætti Stjörnunni í forkeppni Evrópudeildarinnar síðasta sumar.

Gunnar, sem hefur leikið 25 landsleiki fyrir Færeyjar, er væntanlegur til landsins á fimmtu- eða föstudag í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×