Fótbolti

Ribéry: Van Gaal er vondur maður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Franck Ribéry og Van Gaal stara á hvorn annan á æfingu Bayern.
Franck Ribéry og Van Gaal stara á hvorn annan á æfingu Bayern. vísir/afp
Franck Ribéry, leikmaður Bayern München, hefur loks opnað sig um samband sitt og Louis Van Gaal, knattspyrnustjóra Manchester United, þegar hann var undir stjórn Hollendingsins hjá Bayern.

Ribéry og Van Gaal áttu ekki skap saman þegar sá síðarnefndi stýrði Bayern til Þýskalands- og bikarmeistaratitils tímabilið 2009/2010.

„Við áttum í vandræði með mannleg samskipti. Þegar hann byrjaði að þjálfa vissi enginn hvað myndi gerast,“ segir Ribéry í viðtali við Goal.com.

Frakkanum segist aldrei hafa liðið vel undir stjórn Van Gaal og hann hafi fljótlega hætt að treysta þjálfaranum.

„Hans hugmyndafræði var að honum var sama um nöfn. Hann sagðist ekki þurfa neinar stjörnur og allir áttu að sanna sig upp á nýtt,“ segir Ribéry.

„Samskipti okkar voru eitruð frá fyrsta degi. Sem atvinnumaður hættir maður að treysta þjálfaranum. Hann gerði frábæra hluti í leikjum en þjálfarinn Van Gaal var vondur maður. Samband okkar var í molum.“

Ribéry segist hafa verið nálægt því að yfirgefa Bayern vegna Van Gaal þegar Chelsea, Manchester City og fleiri önnur stórlið höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir.

„Þetta var þung byrði að bera. Mörg lið reyndu að fá mig eins og Real Madrid, Barcelona, Juventus, Chelsea og Manchester City. Ég hugsaði auðvitað málið. Ég ákvað svo hvar ég vildi vera til framtíðar. Það er bara mannlegt,“ segir Franck Ribéry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×