Fótbolti

Tíu lærisveinar Rúnars björguðu stigi í uppbótartíma

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matthías Vilhjálmsson lagði upp mark Start.
Matthías Vilhjálmsson lagði upp mark Start. mynd/ikstart.no
Start og Lilleström skildu jöfn, 1-1, í Íslendingaslag í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. Lilleström jafnaði metin í uppbótartíma.

Rúnar Kristinsson var að stýra Lilleström í sínum fyrsta leik í deildinni, en hann stillti Finni Orra Margeirssyni upp í byrjunarliðinu. Árni Vilhjálmsson byrjaði á bekknum.

Matthías Vilhjálmsson var í byrjunarliði Start en fyrirliðinn Guðmundur Kristjánsson var ekki í leikmannahópnum. Markvörðurinn Ingvar Jónsson, sem kom frá Stjörnunni í vetur, sat allan tímann á bekknum.

Fyrsta mark leiksins skoruðu gestirnir í Start strax á 11. mínútu, en það skoraði Espen Börufsen með skalla eftir laglega fyrirgjöf Matthíasar. Hann spilaði flott veggspil við samherja sinn áður en hann sendi boltann á kollinn á Börufsen.

Lilleström varð fyrir áfalli á fyrstu sekúndum seinni hálfleiks þegar miðvörðurinn Frode Kippe lét reka sig af velli fyrir að stöðva Emil Dahle, leikmann Start, sem var að sleppa einn í gegn.

Heimamenn sóttu nokkuð stíft síðustu 20 mínútur leiksins og uppskáru mark á þriðju mínútu í uppbótartíma þegar Simen Kind Mikalsen skoraði með fallegu skoti í bláhornið. Grátlegt fyrir Start en Lilleström verðskuldaði stigið.

Árni Vilhjálmsson kom inn á sem varamaður fyrir Moryke Fofana á 81. mínútu og stóð sig ágætlega þær mínútur sem hann spilaði í frumraun sinni í norsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×