Íslenski boltinn

Arnar Grétars: Ég er ekkert hoppandi kátur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. vísir/getty
„Hvað á maður að segja?," voru fyrstu viðbrögð þjálfara Breiðabliks, Arnars Grétarssonar, við því að Kristján Flóki Finnbogason væri búinn að semja við FH.

Arnar taldi það vera klárt að Kristján Flóki myndi spila með Blikum enda sendu Blikar frá sér fréttatilkynningu þann 17. mars að leikmaðurinn væri búinn að skrifa undir þriggja ára samning við félagið.

Það reyndist ekki vera rétt enda hafði leikmaðurinn ekki skrifað undir neitt. Í gærkvöldi gáfu Blikar aftur á móti frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að félagið hefði náð samkomulagi við leikmanninn og danska liðið FCK þar sem hann var að spila.

Sjá einnig: Kristján Flóki skrifaði undir þriggja ára samning við FH

Í dag skrifaði svo móðir Kristjáns Flóka undir samning við FH fyrir hönd sonar síns. Þessu ótrúlega máli er því formlega lokið. Hann mun spila með uppeldisfélagi sínu eftir allt saman.

„Fyrst þetta er niðurstaðan þá óska ég honum góðs gengis hjá FH. Þetta er búið að vera leiðindamál," segir Arnar en hann þarf nú liðsstyrk. Ekki bara missti hann Kristján Flóka heldur er Elvar Páll Sigurðsson farinn í Leikni, Elfar Árni Aðalsteinsson í KA og Árni Vilhjálmsson fór til Noregs.

„Þetta er ekkert frábært. Það gefur augaleið. Ég er ekkert hoppandi kátur með þetta. Þetta eru bara leiðindi og nú er það afgreitt. Það þýðir ekkert að ræða það meira núna.

„Ég veit ekki hvort það verði einhverjir eftirmálar af þessu máli. Við erum að skoða okkar leikmannamál á fullu. Við ætluðum að bæta einum manni ásamt Kristjáni Flóka en nú breytist það í tvo leikmenn."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×