Erlent

Flugmenn koma Lubitz til varnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitarmenn leita flugrita vélarinnar, sem inniheldur gögn um stjórnkerfi vélarinnar, stefnu, hæð og fleira.
Leitarmenn leita flugrita vélarinnar, sem inniheldur gögn um stjórnkerfi vélarinnar, stefnu, hæð og fleira. Vísir/EPA
Flugmenn víða um heim hafa komið Andreas Lubitz til varnar síðan því var haldið fram að hann hefði flogið Germanwings-vélinni vísvitandi á fjall í Ölpunum. Rannsakendur tilkynntu í gær að hljóðupptökur úr flugstjórnarklefanum sýndu fram á að Lubitz hefði læst flugstjórann úr klefanum og lækkað flugið.

Þeir segja að á upptökunum heyrist andardráttur Lubitz og að flugstjórinn biðji hann um að hleypa sér inn. Þá reyndi flugstjórinn að brjóta niður hurðina með öllu sem hann gat og meðal annars exi. Á síðustu mínútu upptökunnar heyrast hróp og öskur farþega vélarinnar þegar þau áttuðu sig á því hvað væri að gerast. Vélin lenti í mjög brattri fjallshlíð á um 700 kílómetra hraða.

Sjá einnig: Aðstoðarflugmaðurinn brotlenti vélinni viljandi.

Samband atvinnuflugmanna í Þýskalands segir að ótímabært sé að draga slíkar ályktanir fyrr en hinn svarti kassinn finnst. Hann inniheldur tæknilegar upplýsingar um stjórnkerfi vélarinnar, stefnu, hæð og fleiri atriði.

Hér má sjá upplýsingar um báða flugrita vélarinnar.Vísir/Graphic News
„Við eigum ekki að draga ályktanir af takmörkuðum gögnum,“ er haft eftir Ilja Schulz, formanni sambandsins á vef Independent. „Ástæða þessa harmleiks verður eingöngu ljós þegar öll gögn hafa verið skoðuð af gaumgæfni.

Flugfélög víða um heim breyttu reglum sínum í gær á þá leið að aldrei ættu að vera færri en tveir aðilar í flugstjórnarklefum flugvéla. Þannig hafa reglurnar verið lengi í Bandaríkjunum.

Þýskir flugmenn segja að löggjafar í Evrópu ættu að bíða aðeins með slíkar breytingar og taka ákvarðanir um þær þegar öll gögn hafa litið dagsins ljós og rannsókn sé lokið.


Tengdar fréttir

Kafa djúpt í líf Lubitz

Þýska lögreglan hefur hafið viðamikla rannsókn á lífi Andreasar Lubitz, aðstoðarflugmanni German Wings sem flaug Airbus þotu af ráðnum hug á fjallshlíð í Ölpunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×