Innlent

Gunnar Bragi segir stjórnina ekki þvingaða til að fylgja stefnu vinstristjórnarinnar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir/Vilhelm
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að þingsályktun frá 2009 um að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu hafi aðeins pólitískt gildi. „Sá meirihluti sem að henni stóð og þau stefnumál sem hann stóð fyrir féll í kosningunum 2013,“ skrifar hann í Morgunblaðið.



„Sú ríkisstjórn sem þá tók við verður ekki knúin til að fylgja eftir þeim ályktunum sem fyrri ríkisstjórn fékk samþykktar í tíð meirihluta sem er ekki lengur fyrir hendi,“ skrifar ráðherrann í pistlinum þar sem hann fjallar um bréf minnihlutans á þingi til Evrópusambandsins.



„Í bréfinu er látið í veðri vaka að ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 lýsi ríkjandi afstöðu á Alþingi og hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórninni sé óheimilt að víkja frá. Ekkert er fjær sanni,“ segir Gunnar Bragi en tekist hefur verið á um hvort stjórninni hafi verið heimilt að slíta viðræðunum með þeim hætti sem gert var í síðustu viku.



Gunnar Bragi hafnar því líka í greininni að um meiriháttar utanríkismál hafi verið að ræða og segir að málið hafi verið til umræðu í utanríkismálanefnd.



„Hún hefur margoft verið rædd í utanríkismálanefnd, þ. á m. þegar hléi fyrri ríkisstjórnar var fram haldið, þegar samninganefndin og -hóparnir voru leystir frá störfum, þegar framkvæmdastjórnin féll frá samningsbundum fégreiðslum til ýmissa aðlögunarverkefna (IPA-styrkir) og nú síðast þegar þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina til baka var til meðferðar á síðasta þingi,“ skrifar ráðherrann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×